Erlent

Hyggst herða aðgerðir gegn N-Kóreu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
John Kerry sparaði ekki stóru orðin er hann ræddi um Norður-Kóreu.
John Kerry sparaði ekki stóru orðin er hann ræddi um Norður-Kóreu. Nordicphotos/afp
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór mikinn um málefni Norður-Kóreu í heimsókn sinni til höfuðborgar Suður-Kóreu, Seoul, í gær.

Kerry sagði að norðurkóreska ríkisstjórnin væri hvergi nærri því að binda enda á kjarnorkuvopnavæðingu ríkisins í ljósi þess hve ítrekað ríkið hefur ögrað alþjóðasamfélaginu nýverið. „Ég held að alþjóðasamfélagið hafi aldrei verið jafnsameinað og nú. Það er forgangsatriði númer eitt að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu,“ sagði Kerry.

Kerry sagði enn fremur að bandaríska ríkisstjórnin muni funda með þeirri kínversku í júní um næstu skref í þessum málum. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kínverja, Hong Lei, neitaði að tjá sig um ummæli utanríkisráðherrans bandaríska. Kínverjar hafa oft og lengi beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar aðgerðir gegn Norður-Kóreu hafa verið til umræðu.

„Ríkisstjórn Norður-Kóreu er eitt alversta dæmið um algjöra vanvirðingu við mannréttindi og mannfólk alls staðar í heiminum. Hún sýnir af sér viðurstyggð, ógeð og hrylling að geðþótta leiðtogans,“ sagði Kerry að lokum. Allsherjarráð Sameinuðu þjóðanna hefur lagt til að ákæra ríkið fyrir mannréttindabrot en líklegt þykir að Kínverjar beiti neitunarvaldi gegn slíkri kæru. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×