Erlent

Fórnarlömb í Bretlandi fá hjálp

Hundruð klámsíða sérhæfa sig í klámi án samþykkis í Bretlandi.
Hundruð klámsíða sérhæfa sig í klámi án samþykkis í Bretlandi.
Í Bretlandi hefur verið sett á laggirnar svokölluð hjálparlína fyrir fórnarlömb hefndarkláms. Góðgerðarsamtökin South West Grid for Learning standa að hjálparlínunni.

Starfsfólk þjónustunnar veitir fólki ráðleggingar um hvernig það geti fengið myndir og myndbönd fjarlægð af netinu. Einnig mun starfsfólkið starfa með lögreglu og öðrum samtökum sem taka á slíkum málum. Þetta kemur á vef The Guardian.

Ný bresk löggjöf kveður á um að þeir sem dreifa hefndarklámi geta átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi. Lögin banna dreifingu myndefnis af kynferðislegum toga án samþykkis.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur tekið í sama streng og Bretar. Hún hefur lagt fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum þess efnis að bann verði lagt við svokölluðu hefndarklámi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að síðustu misseri hafi mikil umræða verið um hefndarklám, bæði hér heima og erlendis. Í apríl birtist til að mynda frétt þess efnis að á erlendri spjallsíðu væru íslenskir karlmenn að skiptast á myndum af fáklæddum íslenskum stúlkum. Þær yngstu væru á fjórtánda aldursári og fram kom að hundruð mynda af íslenskum stúlkum væru komin inn á spjallsíðuna.

Hundruð klámsíðna sérhæfa sig í klámi án samþykkis en í Bretlandi er talið að um 30 síður geri eingöngu út á hefndarklám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×