Erlent

Baðst afsökunar á því að sökkva Rainbow Warrior

Samúel Karl Ólason skrifar
Rainbow Warrior í höfninni í Aukland.
Rainbow Warrior í höfninni í Aukland. Vísir/AFP
Jean-Luc Kister, kom sprengjum fyrir á botni Rainbow Warrior, flaggskips Greenpeace, þar sem það var við bryggju í Auckland í Nýja-Sjálandi þann tíunda júlí 1985. Til stóð að skipinu yrði siglt til Mururoa í Frönsku Pólýnesíu, þar sem meðlimir Greenpeace ætluðu að mótmæla kjarnorkutilraunum Frakka.

Sprengjurnar sprungu hins vegar og sökk skipið. Ljósmyndarinnar Fernando Pereira, lét lífið í sprengingunni.

Kister, sem var hluti af tólf manna sveit frönsku leyniþjónustunnar, DGSE, hefur nú beðist afsökunar á atvikinu. Í samtali við fjölmiðla í Nýja-Sjálandi segir hann að markmiðið hafi ekki verið að drepa neinn og að aðgerðin hefði verið allt of harkaleg. Þar að auki hefði hún verið framkvæmd í vinveittu landi.

„Við urðum að fylgja skipunum. Við vorum hermenn,“ sagði Kister.

Frakkland hefur einnig beðist afsökunar á málinu og greitt skaðabætur. Þá hætti landið kjarnorkutilraunum í Kyrrahafi árið 1996. Einungis tveir af sveitinni sem Kirster var í hafa farið fyrir dómara vegna málsins. Þeir voru báðir dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir manndráp.

Þó var samið um að þeir yrðu sendir til herstöðvar í Pólýnesíu og þar sátu þeir inni í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×