Erlent

Segir nóg komið af gagnrýni á leyniþjónustuna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Philip Hammond.
Philip Hammond. Vísir/EPA
Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, segir nóg komið af þeirri gagnrýni á leyniþjónustuna vegna njósnastarfsemi, sem Edward Snowden ljóstraði upp um. Nú sé kominn tími til að leyfa leyniþjónustunni að sinna störfum sínum án þess að láta þessa umræðu trufla sig.

Þetta sagði hann á breska þinginu í gær, þar sem rætt var meðal annars um aðgerðir til að hamla gegn því að breskir ríkisborgarar gangi til liðs við hryðjuverkasamtök erlendis.

Hammond boðaði frumvarp, sem hann ásamt David Cameron forsætisráðherra og Theresa May innanríkisráðherra mun leggja fram á næsta þingi, sem veitir leyniþjónustunni þær heimildir sem hún þarf á að halda. Jafnframt eigi að tryggja skýrt eftirlit með starfsemi hennar. Þar með eigi umræðunni um þessi mál að geta lokið.

Undanfarið hefur mikil umræða verið í Bretlandi um ungt fólk, sem farið hefur til Sýrlands til að ganga þar til liðs við vígasveitir Íslamska ríkisins. Fullyrt hefur verið að böðullinn, sem myrt hefur gísla í Sýrlandi, sé breskur og heiti Mohammed Emwazi. Einnig hafa borist fréttir af þremur breskum unglingsstúlkum, sem farið hafi frá Bretlandi til Sýrlands í þeim tilgangi að giftast þar liðsmönnum Íslamska ríkisins.

Innanríkismálanefnd breska þingsins kallaði til yfirheyrslu í gær feður stúlknanna þriggja. Einnig ræddi nefndin við Mark Rowley, sem er yfirmaður í lögreglunni í London. Hann upplýsti þar að 87 manns, sem tilkynnt var um að hefðu horfið á síðasta ári, hafi að mati lögreglunnar líklega farið úr landi. Þar af séu 26 konur.

Rowley segir lögregluna telja að stúlkurnar hafi fengið peninga til að kaupa sér farmiða með því að stela skartgripum frá fjölskyldum sínum. Hann sagði samt engar vísbendingar enn hafa borist um að þær hafi tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi. Snúi þær aftur til Bretlands eigi þær enga málshöfðun yfir sér.

Hammond notaði ræðu sína meðal annars til þess að beina spjótum sínum að þeim, sem hann segir hafa ýtt undir það að fólk gangi til liðs við hryðjuverkasamtök.

„Það fer ekkert á milli mála að ábyrgðin á hryðjuverkum er þeirra sem fremja þau. En mikil ábyrgð hvílir einnig á þeim sem verja þau,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×