Erlent

Litlir flokkar í lykilstöðu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ómögulegt er að spá um það hver næsti ábúandi í númer 10 verður.
Ómögulegt er að spá um það hver næsti ábúandi í númer 10 verður. Vísir/AFP
Kosningabarátta fyrir þingkosningarnar í Bretlandi komst á flug í sjónvarpskappræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna síðastliðinn fimmtudag.

Kappræðurnar voru einstakar í breskri stjórnmálasögu fyrir þær sakir að þetta er í annað sinn sem kappræðum er sjónvarpað í Bretlandi og í fyrsta sinn tóku leiðtogar sjö stjórnmálaflokka þátt.

Hefðin er sú að stóru flokkarnir tveir, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, taka einir þátt í slíkum viðburðum en nærvera fulltrúa hinna flokkanna þykir vera til marks um það að stóru flokkarnir séu að missa tök sín á breskum stjórnmálum.

Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur útilokað samstarf við Skoska þjóðarflokkinn.Vísir/AFP
Kosningarnar þykja því snúast að miklu leyti um árangur minni flokkanna og möguleika þeirra á að mynda ríkisstjórn með stóru flokkunum eða verja þá falli. Samkvæmt öllum helstu kosningaspám þykir líklegt að enginn flokkur nái hreinum meirihluta og því eru á kreiki miklar vangaveltur um hugsanlegt stjórnarmynstur.

Skoski þjóðarflokkurinn gæti óvænt haft mikil áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar, en samkvæmt mörgum könnunum mun flokkurinn sigra í flestum kjördæmum í Skotlandi og bæta allverulega við sig þingmönnum. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur útilokað að mynda ríkisstjórn með Skoska þjóðarflokknum en hefur þó ekki útilokað að þiggja stuðning hans til að verja minnihlutastjórn flokks síns falli. 

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, tekur í svipaðan streng og Miliband og segir að það sé kappsmál fyrir þau að halda Íhaldsflokknum frá völdum en til þess myndu þau kjósa að verja stjórn Verkamannaflokksins falli.

David Cameron hefur ekki útilokað samstarf við UKIP en leiðtogi þess flokks, Nigel Farage, segir að krafa verði gerð um þjóðaratkvæði um veru Bretlands í Evrópusambandinu.Vísir/EPA
Fylgi við ríkisstjórn Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata stendur höllum fæti vegna fylgishruns Frjálslyndra eftir góðan árangur þeirra í þingkosningunum 2010. Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, þykir ekki hafa staðið við mörg þeirra loforða sem hann varpaði fram í síðustu kosningum. Aðspurður um hugsanlega samstarfsfélaga í ríkisstjórn hefur Clegg sagt að hans fyrsta val væri að vinna áfram með Íhaldsflokknum en hann gæti líka séð fyrir sér ríkisstjórn með Verkamannaflokknum. 

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur neitað að tjá sig um mögulegt stjórnarmynstur fyrr en eftir kosningar. Cameron hefur ekki útilokað samstarf við UKIP, Breska sjálfstæðisflokkinn.

Nigel Farage, leiðtogi UKIP, segist geta hugsað sér að verja ríkisstjórn Íhaldsflokksins falli gegn því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Bretlands í Evrópusambandinu fyrir árslok 2015. Áður hefur Cameron lofað því að slík atkvæðagreiðsla verði haldin fyrir árslok 2017 nái flokkur hans að halda áfram í ríkisstjórn.

Kosningar í Bretlandi fara fram 7. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×