Erlent

Fórnarlamb lögreglunnar fær skaðabætur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmæli gegn leiðtogafundi G8-ríkjanna í Genúa árið 2001 snerust upp í óeirðir.
Mótmæli gegn leiðtogafundi G8-ríkjanna í Genúa árið 2001 snerust upp í óeirðir. Vísir/EPA
Ítalska ríkið þarf að greiða Arnoldo Cestaro skaðabætur vegna ofbeldis sem hann varð fyrir af hálfu ítölsku lögreglunnar sumarið 2001. Mannréttindadómstóll Evrópu segir aðfarir lögreglunnar hljóta að teljast pyntingar.

Cestaro tók þátt í mótmælum gegn leiðtogafundi G8-ríkjanna, sem haldinn var í Genúa 21. til 22. júlí. Föstudaginn 20. júlí voru haldin fjölmenn mótmæli, sem snerust upp í óeirðir og hörð átök mótmælenda við lögreglu.

Nokkur hundruð manns slösuðust í átökunum, bæði mótmælendur og lögreglumenn. Þeirra á meðal var Cestaro, sem þá var 62 ára og meiddist illa þegar lögreglan réðst inn í skóla, þar sem hann og fleiri mótmælendur höfðu fengið húsaskjól með leyfi borgaryfirvalda.

Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að framferði lögreglunnar í skólanum hafi miðast að því að refsa mótmælendum þar í hefndarskyni, og reynt hafi verið að niðurlægja fólk og valda því andlegum sársauka. Þetta framferði jafnist á við pyntingar.

Lögreglumenn börðu Cestaro hvað eftir annað með kylfum með þeim afleiðingum að mörg bein í honum brotnuðu og hann hefur enn ekki náð fyrri styrk í hægri handlegg og hægri fótlegg.

Í dómnum er sérstaklega tekið fram að Cestaro hafi í engu hagað sér með þeim hætti að það réttlæti þessa meðferð. Honum beri því að fá greiddar skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×