Erlent

Litvinenko hafi drepið sig óvart

guðsteinn bjarnason skrifar
Dimitrí Kovtun Efndi til blaðamannafundar í Moskvu í gær.
Dimitrí Kovtun Efndi til blaðamannafundar í Moskvu í gær. fréttablaðið/EPA
Rússneski njósnarinn fyrrverandi, Dimitrí Kovtun, segir líklegt að rússneski njósnarinn Alexander Litvinenko hafi drepið sjálfan sig óvart í London árið 2006. Hann hafi verið að höndla með geislavirka efnið pólon-210 og líklega farið kæruleysislega með það.

„Það er mögulegt að eitthvað sem hann bar á sér hafi smám saman leitt til þess að pólon safnaðist upp í líkama hans,“ sagði Kovtun á blaðamannafundi, sem hann efndi til í Moskvu í gær til þess að koma þessu á framfæri. BBC skýrði frá þessu.

„Ég er þess meira en fullviss að hann hafi verið að höndla með pólon án þess að vita það sjálfur,“ segir hann.

Kovtun hefur ásamt öðrum fyrrverandi njósnara, Andrei Lugovoi, legið undir grun um að hafa myrt Litvinenko með því að byrla honum geislavirkt eitur. Bretar hafa krafist framsals þeirra beggja, en ekki fengið til þess samþykki rússneskra stjórnvalda.Sjálfur sakaði Litvinenko rússnesk stjórnvöld og Vladimír Pútín forseta persónulega um að hafa skipað fyrir um morðið á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×