Í dómnum kemur fram að endanlegt svar velti á því hvort bannið virði meðalhófsregluna. Það þýðir að bann við blóðgjöf eigi ekki að ganga lengra en þörf er á til að tryggja almannaheilbrigði. Slíkt bann gæti staðist ef ekki er hægt að koma í veg fyrir mikla áhættu á smiti með nútímatækni eða ef faraldur HIV-smits hjá samkynhneigðum er í samfélaginu.
Samkynhneigðum karlmönnum er bannað að gefa blóð á Íslandi og voru þau lög sett vegna alnæmisfaraldurs snemma á níunda áratugnum.

Dr. Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að til grundvallar í málinu liggi frönsk löggjöf sem byggir á ESB-tilskipun sem einnig sé hluti af EES-samningnum.
„Þannig má segja að sambærileg sjónarmið kynnu að geta komið til skoðunar hér á landi. Hins vegar þarf að hafa í huga að Mannréttindaskrá ESB, sem í málinu gegnir lykilhlutverki, er ekki hluti af EES-samningnum. Sú staðreynd skapar ákveðna togstreitu í EES-réttinum sem enn hefur ekki verið leyst úr fullkomlega – sérstaklega þar sem EFTA-ríkin hafa enn ekki tekið afstöðu til stöðu Mannréttindaskrárinnar í EES-réttinum," segir Gunnar.