Erlent

Engin samstaða um stríðsloka­at­hafnir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rússar sýna mátt sinn. Hermenn æfa sig fyrir hátíðarhöldin á Rauða torginu á morgun.
Rússar sýna mátt sinn. Hermenn æfa sig fyrir hátíðarhöldin á Rauða torginu á morgun. Vísir/EPA
Rauða torgið í Moskvu var í gær undirlagt af hermönnum að æfa sig fyrir hersýninguna miklu, sem efnt verður til á morgun í tilefni þess að sjötíu ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Sýningin verður ein sú allra stærsta sem Rússar hafa haldið til þessa, með skriðdrekum og þungavopnum af nýjustu gerð til að sýna hvers rússneski herinn er megnugur.

Rússar minnast stríðslokanna jafnan 9. maí, degi á eftir flestum öðrum ríkjum Evrópu sem miða við 8. maí. Æðstu yfirmenn þýska hersins undirrituðu skilyrðislausa uppgjöf sína reyndar þann 7. maí í borginni Reims í Frakklandi, en almennt frétti fólk í Evrópu og Bandaríkjunum ekki af því fyrr en morguninn eftir og því var stríðslokum fagnað þann 8. maí.

Bardögum Þjóðverja og Sovétmanna í Berlín lauk þó ekki fyrr en 8. maí með formlegri undirritun uppgjafar þýska hersins þar í borg. Vegna tímamismunar var þá kominn 9. maí í Moskvu og því fagna Rússar stríðslokum jafnan degi síðar en aðrir, þann 9. maí.

Í spilaranum hér fyrir neðan má hlýða á útvarpsfrétt Ríkisútvarpsins þar sem greint var frá stríðslokum í maí 1945.

Uppgjöf undirrituð Alfred Jodl, æðsti yfirmaður þýska hersins, situr þarna fyrir miðju og undirritar uppgjöf Þjóðverja í Reims 7. maí árið 1945.fréttablaðið/EPA
Pólverjar ákváðu hins vegar þetta árið að taka forskot á sæluna og minntust stríðslokanna strax í gær, þegar rétt 70 ár voru liðin frá því uppgjafarskjalið var undirritað í Reims. 

Ban ki Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Donald Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, tóku þátt í hátíðarhöldum í Póllandi af þessu tilefni, en fáir leiðtogar frá Vestur-Evrópu létu sjá sig þótt þeim hafi verið boðið.

Leiðtogar Evrópuríkja ætla heldur ekki til Moskvu á morgun að fagna með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Lengi vel voru minningarathafnir um stríðslokin notaðar til þess að rifja upp samstöðu bandamanna, en þetta árið varpar hernaðarbrölt Rússa í Úkraínu skugga á þessar athafnir.

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, hélt hins vegar ræðu á miðvikudaginn í Holte-Stukenbrock-höllinni í Þýskalandi, þar sem nasistar höfðu sovéska stríðsfanga í haldi. Tugir þúsunda þeirra voru drepnir.

„Þetta er einn þeirra staða, þar sem við skynjum sterkt og með sársauka að hinir látnu skuldbinda þá sem lifa,“ sagði Gauck við þetta tækifæri.

Í Bandaríkjunum verður svo gömlum herflugvélum frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar flogið yfir höfuðborgina Washington í dag, í tilefni dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×