Erlent

Vilja aðgát á Norðurlöndum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Ólögleg sala menningarminja er áhyggjuefni. Sett verður af stað átak í haust.
Ólögleg sala menningarminja er áhyggjuefni. Sett verður af stað átak í haust. Vísir/Getty
Norræna ráðherranefndin hélt fund í Tórshavn í Færeyjum í fyrradag, þar sem menningarmálaráðherra Norðurlanda gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um ólögleg viðskipti með menningarminjar frá Írak og Sýrlandi.

Í yfirlýsingunni er fólk sem umgengst og höndlar með fornmuni beðið að sýna sérstaka aðgát. „Það er grafalvarlegt að menningar- og sagnfræðilegar minjar séu teknar ófrjálsri hendi í Írak og Sýrlandi og smyglað út úr þessum löndum. Við biðjum norræna fagaðila, listaverkasafnara, listaverkasala, fornsala og starfsfólk safna að sýna sérstaka aðgát.“

Á fundinum var rætt um sölu menningarminja á ólöglegum mörkuðum til að fjármagna starfsemi hinna ýmsu öfgahópa en þann 12. febrúar á þessu ári samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun um að skylda aðildarlönd til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir slík viðskipti. Í framhaldinu vilja menningarmálaráðherrar Norðurlandanna að sett verði af stað átaksverkefni um málið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×