Erlent

Vilja ógilda mannréttindalögin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Cameron forsætisráðherra stillti sér upp til myndatöku fyrir framan þinghúsið í London ásamt nýkjörnum þingmönnum Íhaldsflokksins.
David Cameron forsætisráðherra stillti sér upp til myndatöku fyrir framan þinghúsið í London ásamt nýkjörnum þingmönnum Íhaldsflokksins. nordicphotos/AFP
Fyrir þingkosningarnar í Bretlandi 7. maí síðastliðinn gaf breski Íhaldsflokkurinn kjósendum skýrt loforð um að „fella úr gildi mannréttindalöggjöfina og skerða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, svo auðveldara verði að flytja útlenda glæpamenn úr landi.“

Þetta átti að verða eitt af forgangsmálum stjórnarinnar, en strax viku eftir kosningarnar er komið í ljós að innan Íhaldsflokksins eru afar skiptar skoðanir um þetta kosningamál.

„Ég er hræddur um að með þessu lendum við í átökum við Mannréttindadómstólinn og ekki vil ég að við yfirgefum hann,“ sagði einn þingmanna flokksins, David Davis, í viðtali við dagblaðið Hull Daily Mail. „Ef við förum þá fá allir aðrir afsökun til að fara.“

Hann segist telja að þetta verði enn umdeildara mál en úrsögnin úr Evrópusambandinu, sem Cameron hefur lofað að láta Breta kjósa um síðar á kjörtímabilinu.

Mannréttindi í uppnámi

Bresku mannréttindalögin voru sett árið 1998, þegar Verkamannaflokkurinn var við völd og Tony Blair forsætisráðherra. Tilgangur þeirra var að leiða í bresk lög Mannréttindasáttmála Evrópu og þar með veita Mannréttindadómstól Evrópu ákveðið úrskurðarvald um mannréttindamál í Bretlandi.

Þau hafa frá upphafi verið umdeild, og sérstaklega gagnrýnd fyrir að gera breskum stjórnvöldum erfitt fyrir að vísa útlendum glæpamönnum úr landi.

Í staðinn fyrir mannréttindalögin ætlar breska stjórnin reyndar að setja í lög svonefnda Réttindaskrá, sem á að tryggja Bretum mannréttindi áfram án þess að þurfa að leita sérstaklega til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Áform Camerons hafa verið sögð stefna aðild Bretlands að Evrópuráðinu og Mannréttindasáttmála Evrópu í uppnám. Með breskum sérlögum um mannréttindi ætli Bretar sér að reyna að vera með einhverjum hætti stikkfrí þegar kemur að mannréttindamálum. Þar með verði mannréttindamálum í Bretlandi jafnframt stefnt í uppnám.

Að vísu fylgir ekki, að þótt breska stjórnin nemi mannréttindalögin úr gildi þá þurfi Bretland að segja sig úr Evrópuráðinu, þannig að Bretlandi yrði ekki lengur aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og Evrópudómstólnum. Einstaklingar geta áfram leitað til Mannréttindadómstólsins til að fá úrlausn sinna mála, og með áframhaldandi aðild að sáttmálanum skuldbinda bresk stjórnvöld sig áfram til að þess að fara að ákvæðum hans í allri afgreiðslu mála. Ætli bresk stjórnvöld sér að nota innlend lög til þess að komast hjá því að hlíta ákvæðum Mannréttindasáttmálans, þá má fastlega reikna með því að Mannréttindadómstóllinn fari fljótlega að skipta sér af því.

Norður-Írland í uppnámi

Áform Camerons mæta einnig harðri andstöðu frá Norður-Írlandi, því mannréttindalögin eru nefnilega partur af friðarsamkomulaginu sem gert var á Norður-Írlandi föstudaginn langa árið 1998.

Að friðarsamkomulaginu stóðu bæði bresk og írsk stjórnvöld ásamt átta norðurírskum stjórnmálaflokkum og samtökum, bæði úr röðum sambandssinna og aðskilnaðarsinna. Bresk stjórnvöld skuldbundu sig, rétt eins og hinir aðilar samningsins, til þess að virða hann í einu og öllu, þar á meðal skýrt ákvæði um að bresku mannréttindalögin séu partur af honum.

„Utanríkisráðherrann ætti án tafar að útskýra stöðu stjórnarinnar varðandi það hvort hún ætli sér með þessum hætti að brjóta samninginn sem gerður var í Belfast föstudaginn langa,“ hafði breska dagblaðið The Guardian nú í vikunni eftir Brian Gormally, framkvæmdastjóra norðurírsku mannréttindasamtakanna CAJ. „Skref af því tagi myndi gera Bretland að útlagaríki á alþjóðavettvangi og grafa verulega undan friðarsamkomulaginu á Norður-Írlandi.“

Írsk stjórnvöld hafa sömuleiðis látið skýrt í ljós að þau muni standa með Norður-Írum í þessu máli.

„Það er nauðsynlegt að virða algjörlega það grundvallarhlutverk mannréttinda að tryggja frið og stöðugleika á Norður-Írlandi,“ er haft eftir Charlie Flanagan, utanríkiráðherra írsku stjórnarinnar, í BBC.

Yfirborðsbreytingar einar?

Nýja stjórnin kom saman á sinn fyrsta vikulega fund strax á þriðjudaginn var. Á mánudaginn kemur svo nýkjörið þing saman í fyrsta sinn. Elísabet drottning les síðan stefnuskrá nýrrar stjórnar miðvikudaginn 27. maí, en stefnuræða sú er venju samkvæmt fyrst og fremst listi yfir þau frumvörp sem stjórnin ætlar að leggja fyrir þingið næsta árið.

Það verður Michael Gove, dómsmálaráðherra nýju stjórnarinnar, sem fær það hlutverk að koma þessum breytingum á. Cameron hefur óskað eftir því að drög að frumvarpi liggi fyrir innan hundrað daga, eða ekki síðar en í byrjun ágúst.

Hans bíða í raun tveir kostir: Annaðhvort verða gerðar verulegar breytingar sem kosta það að bresk stjórnvöld lenda fljótlega upp á kant við Mannréttindadómstól Evrópu, eða breytingarnar verða fyrst og fremst á yfirborðinu og hafa í raun lítið að segja.

Nýja stjórnin Ný ríkisstjórn Davids Cameron forsætisráðherra kom saman á þriðjudaginn. George Osborne verður áfram fjármálaráðherra, Philip Hammond utanríkisráðherra og Theresa May innanríkisráðherra.nordicphotos/AFP
Úr kosningastefnu flokksins

„Við höfum komið í veg fyrir að fangar fái kosningarétt, og höfum rekið úr landi grunaða hryðjuverkamenn á borð við Abu Qatada, þrátt fyrir öll þau vandamál sem skapast hafa af mannréttindalöggjöf Verkamannaflokksins.

Næsta ríkisstjórn Íhaldsflokksins mun fella úr gildi Mannréttindalögin og innleiða Réttindaskrá Bretlands. Með þessu verða rofin tengslin milli breskra dómstóla og Mannréttindadómstóls Evrópu, þannig að okkar eigin Hæstiréttur verði endanlegt úrskurðarvald í mannréttindamálum í Bretlandi.“



Evrópuráðið var stofnað fjórum árum eftir lok seinni heimsstyrjaldar og á ekkert skylt við Evrópusambandið.
Áfangar í mannréttindamálum Evrópu og Bretlands



1949

Fjórum árum eftir stríðslok var Evrópuráðið stofnað af tíu Evrópulöndum til að styrkja samvinnu um vandað réttarfar, mannréttindi, lýðræði og menningarmál. Ísland gerðist aðildarríki strax árið eftir og nú eru aðildarríkin 47 talsins. Þeirra á meðal eru Rússland, Tyrkland og Kákasuslöndin Georgía, Aser­baídsjan og Armenía. Raunar eiga öll ríki Evrópu allt til Kákasushéraðanna aðild að Evrópuráðinu að undanskildu einu, sem er Hvíta-Rússland.



1950

Þáverandi aðildarríki Evrópuráðsins settu sér Mannréttindasáttmála Evrópu. Sáttmálinn tók gildi árið 1953 og nú eiga öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins jafnframt aðild að Mannréttindasáttmálanum. Jafnframt var stofnaður Mannréttindadómstóll Evrópu, sem hefur það hlutverk að skera úr um mannréttindamál í aðildarríkjum Evrópuráðsins og styðst dómstóllinn þar við Mannréttindasáttmálann.

Breska þingið samþykkti árið 1998 mannréttindalög, sem tóku svo gildi árið 2000.

1998

Breska þingið samþykkti mannréttindalög sem höfðu það höfuðmarkmið að innleiða Mannréttindasáttmála Evrópu í bresk lög. Með þessu var breskum stjórnvöldum gert skylt að virða þau mannréttindi sem tryggð eru með Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar með áttu Bretar ekki að þurfa að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem breskir dómstólar áttu að tryggja sambærileg réttindi heima fyrir. Eftir sem áður gátu Bretar þó leitað til Mannréttindadómstólsins ef þeir voru ósáttir við afgreiðslu breskra dómstóla.



 


Abu Qatada orðinn frjáls maður ásamt móður sinni í Jórdaníu eftir sýknun í júní á síðasta ári.vísir/epa
Abu Qatada

Abu Qatada er jórdanskur Palestínumaður, sagður predika hatursboðskap og grunaður um tengsl við Al-kaída. Hann var handtekinn í Bretlandi árið 2002 og sendur þaðan til Jórdaníu árið 2013 eftir að Jórdanir höfðu fullvissað Breta um að hann myndi ekki sæta pyntingum. Í júní 2014 var hann svo sýknaður í Jórdaníu af ákærum um aðild að hryðjuverkum.

Bresk stjórnvöld hugðust vísa honum úr landi strax eftir að hann var handtekinn árið 2002, en hann barðist hart gegn brottvísun og tóku þau málaferli meira en áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×