Erlent

Saumuðu hönd manns við bumbu hans til að bjarga henni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Er höndin hafði jafnað sig var hún skorin frá á nýjan leik.
Er höndin hafði jafnað sig var hún skorin frá á nýjan leik.
Annarri hönd 87 ára gamals íbúa Texas var bjargað á dögunum með nokkuð óvenjulegri aðferð. Frank Reyes hafði brennt sig svo illa á hendinni að það að græða húð á hana var ekki möguleiki. Því þurfti annaðhvort að taka höndina af eða að grípa til þess ráð að sauma hana inn í kvið mannsins.

„Þetta er svolítið skrítið. Ég finn alltaf fyrir henni í maganum á mér,“ segir Reyes en höndin var saumuð við hann í þrjár vikur. Í lok ágústmánaðar var hún skorin frá og vonast læknar hans til þess að eftir endurhæfingu muni Reyes ná fullri hreyfigetu á nýjan leik.

Brunasárið var of djúpt, alveg inn að beini, til að hefðbundnari aðferðir væru möguleiki. Aðgerðir á borð við þessa, að tengja líkamshluta tímabundið við annan, eru einnig notaðar á stríðssvæðum og hafa verið þekktar frá því í fyrri heimstyrjöldinni.

Myndband með viðtali við Reyes og myndum úr aðgerðinni er höndin var losuð frá má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×