Erlent

Gengu í skrokk á fimmtán ára stúlku - Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Á myndbandinu má sjá hvernig hópur unglingsstúlkna ræðst á eina stúlku og berja á henni í nærri því þrjár mínútur.
Á myndbandinu má sjá hvernig hópur unglingsstúlkna ræðst á eina stúlku og berja á henni í nærri því þrjár mínútur.
Grimmilegt myndband af minnst fjórum stúlkum ganga illilega í skrokk á fimmtán ára stúlku í New York í Bandaríkjunum hefur verið birt á netinu.

Á myndbandinu má sjá hvernig hópur unglingsstúlkna ræðst á eina stúlku og berja á henni í nærri því þrjár mínútur. Þar að auki er sparkað margsinnis í höfuð hennar þar sem hún liggur á gólfi skyndibitastaðarins eftir árásina.

Fjöldi fólks, aðrir skólakrakkar sem og fullorðnir, fylgjast með árásinni án þess að reyna að stöðva hana. Margir fögnuðu og í myndbandinu má heyra einn grínast með að stúlkan væri dáin, þar sem hún liggur hreyfingarlaus á gólfinu.

Á vef NY Daily News segir að starfsmenn McDonalds hafi hringt á neyðarlínuna, en enginn af þeim fjölmörgu sem fylgdust með atvikinu reyndi að tilkynna það.

Þau fjölmörgu vitni sem fylgdust með hafa ekki viljað tjá sig um atvikið samkvæmt Daily News. Þá neitar stúlkan sem varð fyrir árásinni að tala við lögregluna. Þær stúlkur sem gengu í skrokk á henni, eru sagðar tengjast ofbeldisfullum glæpasamtökum á svæðinu.

Samfélagsleiðtogar hafa beðið stúlkuna um að tala við lögregluna og segja að þeir muni standa við bakið á henni. Þá hafa hinar verið beðnar um að spara lögreglunni tíma og peninga og gefa sig fram.

Daily News segja að stúlkurnar hafi ákveðið fyrirfram að hittast á þessum stað til að útkljá deilur. Á myndbandinu má sjá að fórnarlambið slær fyrst til einnar stúlkunnar, en þó hópast hinar saman gegn henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×