Erlent

Norðurkóreski herinn sagður geta skotið eldflaugum úr kafbátum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Norðurkóreskir fjölmiðlar birtu myndir af Kim Jong-Un, einræðisherra ríkisins, fylgjast með eldflaug sem skotið var neðansjávar
Norðurkóreskir fjölmiðlar birtu myndir af Kim Jong-Un, einræðisherra ríkisins, fylgjast með eldflaug sem skotið var neðansjávar Vísir/EPA
Norðurkóresk stjórnvöld segjast hafa skotið eldflaug úr kafbáti. Sé það rétt þýðir það að ríkið hafi þróað tækni sem það bjó ekki yfir áður. Eldflaugaskotið hefur ekki verið staðfest af óháðum aðilum. BBC greinir frá þessu í dag.

Norðurkóreskir fjölmiðlar birtu myndir af Kim Jong-Un, einræðisherra ríkisins, fylgjast með eldflaug sem skotið var neðansjávar úr kafbáti. Ekki hefur verið staðfest hvort að myndin sé raunveruleg eða hvort hún sé fölsuð.

Fjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa eftir einræðisherranum að landið búi nú yfir hernaðartækni í heimsklassa.

Staðfest hefur verið að eldflaugum var skotið í sjóinn undan ströndum Norður-Kóreu, án þess að fyrir liggi hvort að þeim hafi verið skotið úr kafbáti. Nýlegar gervihnattamyndir sína að einn af kafbátum norðurkóreska hersins er nú búinn skothólkum  sem nota má til að skjóta á loft eldflaugum.

Hingað til hefur landið ekki búið yfir tækni til að skjóta eldflaugum úr kafbátum og er því um talsverða framför í herbúnaði að ræða, ef rétt reynist. Erfitt getur reynst að fylgjast með ferðum kafbáta og því erfiðara að fylgjast með undirbúningi eldflaugaskots.

Öryggisráð Suður-Kóreu var kallað saman á sunnudag vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×