Erlent

Öryggisráðið samþykkir nýjan friðarsamning í Líbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmargir komu saman í borginni Tripoli á föstudag til að mótmæla friðarsamkomulaginu.
Fjölmargir komu saman í borginni Tripoli á föstudag til að mótmæla friðarsamkomulaginu. Vísir/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun sem felur í sér að stríðandi fylkingar í Líbíu myndi saman þjóðstjórn í landinu.

Vonast er til að með þessu verði hægt að koma á stöðugleika í landinu og stöðva sókn liðsmanna ISIS-samtakanna, en ályktunin var samþykkt einróma.

Bresk stjórnvöld lögðu fram ályktunina sem gerir ráð fyrir að ný þjóðstjórn verði sú eina sem viðurkennd verði á alþjóðavísu, en tvær ólíkar ríkisstjórnir hafa deilt um völdin í landinu síðustu mánuði og ár.

Ástandið í Líbíu hefur verið mjög óstöðugt allt frá falli einræðisherrans Muammar Gaddafi árið 2011. Sjálfskipuð ríkisstjórn hefur stýrt landinu frá höfuðborginni Tripoli en önnur, sem viðurkennd er af stærstum hluta alþjóðasamfélagsins, hefur stjórnað frá borginni Tobruk í austurhluta landsins.

Fjölmargir innan beggja fylkinga hafa mótmælt samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×