Erlent

Fleiri saka Rússa um að valda mannfalli meðal borgara

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá meintri loftárás Rússa í Idlib, þann 29. nóvember.
Frá meintri loftárás Rússa í Idlib, þann 29. nóvember. Vísir/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa nú bæst í hóp þeirra sem saka Rússa um að valda miklum mannfalli meðal óbreyttra borgara með loftárásum sínum í norðanverðu Sýrlandi. Samtökin birtu skýrslu í vikunni þar sem Rússar eru sakaðir um að varpa klasasprengjum á borgara og brjóta gegn alþjóðalögum.

Embættismenn í Rússlands hafna ásökunum Amnesty alfarið. Eftirlitsaðilar viðurkenna einnig að þeir geti ekki vitað hvort að her Bashar al-Assad eða Rússar geri einstaka árásir. Þó sé það álitið að Rússar fljúgi hærra í loftinu en herinn og þeir séu oftar á ferð á tveimur flugvélum.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússlands segir ásakanir Amnesty vera „klisjukenndar og falskar“ og segir samtökin notast við upplýsingar sem ekki sé hægt að sannreyna. Hann setti sérstaklega út á þá staðhæfingu Amnesty að Rússar hefðu gert árásir á staði þar sem enga uppreisnarmenn væri að finna.

Ásakanir Amnesty International gegn Rússum.Vísir/GraphicNews
Igor Konahsenkov sagði samtökin ekki hafa hugmynd um hvar uppreisnarmenn væru og hvar þeir væru ekki.

Sjá einnig: Rússar sagðir hafa fellt fjölda borgara í loftárásum.

Auk Amnesty hafa samtök eins og Human Rights Watch og Læknar án landamæra sakað Rússa um að valda mannfalli meðal borgara. Syrian Observatory for Human Rights, sem reka víðtækt net heimildarmanna í Sýrlandi, segja að minnst 710 almennir borgarar hafi fallið í árásum Rússa í Sýrlandi á þeim tæpu þremur mánuðum sem þær hafa staðið yfir. 

Á vef TASS fréttaveitunnar sem rekin er af rússneska ríkinu segir að á síðustu fimm dögum hafi nærri því 1.100 loftárásir verið gerðar í fimm héröðum í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×