Erlent

Breskri fjölskyldu meinað að ferðast til Bandaríkjanna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Breskur þingmaður hefur krafið David Cameron forsætisráðherra skýringa á því hvers vegna bresk fjölskylda, múslimar, fékk ekki að ferðast til Bandaríkjanna í síðustu viku. Öllum ellefu meðlimum fjölskyldunnar var vísað frá Gatwick flugvelli við komu þeirra þangað.

Þingmaðurinn, Stella Creasy, ritaði Cameron bréf þess efnis og sagði það hafa færst í aukana að múslimum sé meinað að fljúga, án nokkurra skýringa, líkt og í tilfelli fjölskyldunnar.

Í frétt Guardian segir að fjölskyldan hafi safnað fyrir ferðinni í nokkra mánuði, í þeim tilgangi að fara í Disneyland í Los Angeles, og fengið vegabréfaáritun nokkrum vikum áður.

Mohammad Tariq Mahmood, einn fjölskyldumeðlimanna, sagðist engar skýringar hafa fengið, en taldi ástæðuna þó nokkuð augljósa. „Það er vegna árásanna í Ameríku – þau halda að ógn stafi af öllum múslimum,“ sagði hann í samtali við Guardian. Hann sagði mikla tilhlökkun hafa ríkt meðal barnanna, sem séu níu talsins á aldrinum átta til nítján ára. Nú sé hann fúll, sár og reiður.

Fjölskyldan hefur nú fengið þær upplýsingar að flugmiðarnir verði ekki endurgreiddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×