Erlent

Leita námuverkamanns: Sprenging í Indlandi varð 89 manns að bana

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fólk safnaðist saman þar sem sprengingin átti sér stað en hún olli gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni.
Fólk safnaðist saman þar sem sprengingin átti sér stað en hún olli gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni. Vísir/EPA
Yfirvöld á Indlandi leita að námumanni sem sagður er eiga sök á sprengingu á mið-Indlandi í gær sem varð 89 manns að bana og særði um hundrað til viðbótar. Rannsókn stendur yfir á hvað olli sprengingunni sem varð nánar tiltekið í Jhabua héraði.

Maðurinn heitir Rajenda Kaswa og er sakaður um að hafa geymt sprengiefni í íbúðabyggingunni þar sem sprengingin varð. Meðal þeirra látnu eru viðskiptavinir veitingastaðar sem var í húsinu við hliðina en sprengingin olli einnig skemmdum á húsum sem stóðu hinu megin við götuna.

„Hópar af lögreglumönnum hafa dreift sér víðsvegar um svæðið til þess að ná honum,“ segir Seema Alawa, yfirmaður lögreglunnar í Jhabua í Madhya Pradesh ríki. Lögreglan hefur lokað vöruskemmum í eigu Kaswa.

Lög á Indlandi leyfa ekki að íbúðabyggingar séu nýttar undir verslana- og fyrirtækjarekstur en þessum reglum er sjaldnast fylgt eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×