Viðskipti innlent

Pentair sér mikil tækifæri í Vaka

Hafliði Helgason skrifar
Hermann Kristjánsson, forstjóri Vaka, Barney Leddy frá Pentair og Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Vaka. Kaup Penair á Vaka opna ný tækifæri beggja.
Hermann Kristjánsson, forstjóri Vaka, Barney Leddy frá Pentair og Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Vaka. Kaup Penair á Vaka opna ný tækifæri beggja.
Endanlega hefur verið gengið frá kaupum Pentair á Vaka fiskeldiskerfum. Barney Leddy, fulltrúi Pentair sem leiðir starfsemi fyrirtækisins á sviði tækni fyrir fiskeldi segist sjá mikil tækifæri með kaupunum á Vaka.

Pentair sérhæfir sig í hreinsun og dælingu vatns bæði fyrir neysluvatn og nýtingu og hreinsun vatns til atvinnustarfsemi. „Við erum með tækni sem nýtist vel í matvælaiðnaði, hreinsun neysluvatns og fyrir sundlaugar og Vaki er með tækni sem fellur vel að okkar vöruframboði og við teljum að saman höfum við mikla möguleika á að vaxa,“ segir Barney.

Hann segir að Pentair hafi selt hreinsunarbúnað og þar hafi vaknað áhugi á að stækka frekar á þeim markaði. „Með vaxandi mannfjölda og bættum efnahag vex eftirspurn eftir gæðapróteini og við sjáum fyrir okkur að þessi markaður muni vaxa mikið.“

Hann segir Vaka vel rekið og sterkt fyrirtæki og tækifærin liggi í að sameina krafta, tækni og markaði til að ná enn betri árangri. Barney segir ekki uppi áætlanir um annað en að Vaki verði rekinn áfram í óbreyttri mynd.

Íslenskt efnahagslíf hefur verið sveiflukennt, en Barney segir að ekki hafi verið mikið horft til þess. „Við skoðuðum að sjálfsögðu grunnþætti í efnahagslífinu, en við erum að fjárfesta í góðu fyrirtæki til langs tíma og við vitum að á þeirri vegferð geta orðið sveiflur. Við gerum ráð fyrir því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×