Viðskipti innlent

Landinn horfir meira á símann en talar í hann

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ef marka má tölfræðina er stelpan að eiga samskipti í gegnum netið frekar en með SMS-sklaboðum.
Ef marka má tölfræðina er stelpan að eiga samskipti í gegnum netið frekar en með SMS-sklaboðum. Vísir/Getty
Fjarskiptahegðun Íslendinga er að breytast ansi hratt ef marka má nýja skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2016. Svo virðist sem samskipti séu að færast hratt úr hefðbundnum símhringingum og smáskilaboðum í samskipti í gegnum netið.

Send SMS drógust saman um 10,4 prósent milli ára á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra. Heildarfjöldi SMS-skeyta dróst saman um 14 prósent á síðustu tveimur árum. Á sama tíma jókst gagnamagn á farsímaneti um 58,9 prósent, gagnamagn, netið í símann, tæplega tvöfaldaðist, eða jókst um 96,7 prósent milli ára, og netþjónusta á farsímaneti jókst um 39 prósent.

Símtölum til útlanda fer fækkandi milli ára. Fjöldi mínútna úr fastlínusíma, heimasíma og vinnusíma, dróst saman um 10,6 prósent milli ára, og um 26 prósent á síðustu tveimur árum. Ef litið er lengra til baka má sjá að símtöl hafa dregist saman mun meira bæði í heimasíma, farsíma og til útlanda á síðustu árum. Heildarfjöldi heimila með fastlínusamband hefur dregist saman um átta prósent á síðustu tveimur árum.

Ljósleiðaravæðingin heldur ótrauð áfram, á meðan fjöldi internettenginga jókst einungis um 2,5 prósent milli ára þá jukust ljósleiðarar um 18,5 prósent milli ára.

Fyrirfram greiddum símakortum fjölgar um 1,5 prósent sem má ef til vill rekja til fjölgunar ferðamanna hér á landi.

Þegar litið er til farsímanets­áskrifta er Nova með 34,4 prósenta hlutdeild og jókst hún milli ára. Síminn missti hlutdeild og er með 33,7 prósent en hlutdeild Vodafone jókst frá 2015 og var 27,5 prósent. 365 var með 3,7 prósenta hlutdeild sem er óbreytt á milli ára.

Heildartekjur á fjarskiptamarkaði jukust um 5,3 prósent milli ára og voru 27,7 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins en fjárfesting dróst saman um 2,8 prósent milli ára. saeunn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×