Viðskipti innlent

Jólabónusinn á að greiðast í síðasta lagi 15. desember

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margir leggja leið sína í miðbæinn til að versla jólagjafir.
Margir leggja leið sína í miðbæinn til að versla jólagjafir. Vísir/GVA
Um sjötíu prósent launafólks á almennum vinnumarkðaði eiga von á desemberuppbót eftir fjórar vikur. Um er að ræða fimmtíu þúsund starfsmenn hjá um tvö þúsund fyrirtækjum sem eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins. Fólk í 100 prósent vinnu á von á 82 þúsund krónum sem vafalítið munu koma flestum vel í aðdraganda jólanna þegar neysla landsmanna eykst svo um munar.

Uppbótin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall en fullt ársstarf telst a.m.k. 45 unnar vikur fyrir utan orlof. Starfsmenn sem eru í starfi í fyrstu viku desember eiga ávallt rétt á uppbót, hlutfallslega m.v. starfstíma, en aðrir þurfa að hafa unnið a.m.k. 12 vikur á síðustu 12 mánuðum til að eiga rétt á uppbótað því er segir á heimasíðu SA.

Á heimasíðu Eflingar, stéttarfélags sem hefur um 23 þúsund félagsmenn, segir að starfsmenn hjá ríkinu og á hjúkrunarheimilum fái sömuleiðis 82 þúsund krónur í desemberuppbót. Starfsmenn Reykjavíkurborgar fá 90.700 krónur í desemberuppbót og sveitarfélögin 106.250 krónur.

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Yfir 2.000 fjölbreytt fyrirtæki eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

 

 


Tengdar fréttir

Starfsfólk bankanna fær ekki jólabónusa

Stóru viðskiptabankarnir þrír ætla ekki að greiða starfsfólki sínu jólabónus í ár. Ekkert ákveðið um málið í Íslandsbanka og Arion banka. Desemberuppbót greidd samkvæmt kjarasamningum. Síðast greiddi Arion banki jólabónus 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×