Fótbolti

Anna Björk og stöllur náðu jafntefli gegn toppliðinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Anna Björk í leik með Stjörnunni á sínum tíma.
Anna Björk í leik með Stjörnunni á sínum tíma. Vísir/Valli
Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur í Örebro nældu í stig gegn toppliði Linkopings í sænsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag en Örebro er nú sjö stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Linköpings komst yfir snemma leiks en náði svo að jafna metin á 81. mínútu eftir að Örebro svaraði með tveimur mörkum sitthvoru megin við hálfleikinn. Var þetta þriðja jafntefli Örebro í síðustu fjórum leikjum og fjarlægjast þær hægt og bítandi fallbaráttuna.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Eskilstuna gerðu einnig jafntefli í fyrri leik dagsins 3-3 gegn Djurgarden á útivelli en jöfnunarmark Djurgarden kom undir lok venjulegs leiktíma.

Var þetta sjöundi leikurinn í röð án taps hjá Eskilstuna en liðið siglir lygnan sjó í fjórða sæti, sautján stigum frá Evrópusæti.

Í Noregi kom Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir inn af bekknum í 0-0 jafntefli Stabæk gegn Kolbotn í norsku deildinni en Stabæk situr áfram í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Kolbotn í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×