Viðskipti innlent

Gert ráð fyrir mun meiri vexti í jólaverslun á milli ára en sést hefur frá hruni

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Rannsóknarsetur verslunarinnar áætlar að jólaverslunin aukist um 10,3 prósent frá síðasta ári. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir mun meiri vexti í jólaverslun á milli ára en sést hefur frá bankahruninu árið 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarsetursins um jólagjafaverslun árið 2016. Þar segir að vaxandi hagvöxtur og aukin einkaneysla gefi vísbendingu um að velta smásöluverslunar muni ná nýjum hæðum nú í aðdraganda jóla.

Árið 2014 nam vöxtur jólaverslunar 4,5 prósentum, í fyrra var vöxturinn 6,6 prósent en í ár er gert ráð fyrir 10,3 prósenta vexti.

Gert er ráð fyrir því að vöxtur í sérverslun verði meiri en í dagvöru.

Fram kemur í skýrslunni að hver Íslendingur muni að jafnaði eyða rúmum 53 þúsund krónum til innkaupa í nóvember og desember. Þessi upphæð nam 49 þúsund krónum í fyrra.

Rannsóknarsetrið tekur dæmi um fjögurra manna fjölskyldu. Hún mun eyða um 215 þúsund krónum í jólahald í ár.

Vöxtur hefur verið í allri tegund verslunar að undanförnu, til að mynda í dagvöru. Það þýðir að landinn mun gera vel við sig í mat og drykk um hátíðirnar.

Þá er gert ráð fyrir aukinni sölu í raftækjum til afþreyingar sem gætu ratað í jólapakkana í ár.

Um er að ræða raftæki sem öll fjölskyldan getur notað, eins og leikjatölvu. Þá má gera ráð fyrir aukinni sölu á sjónvörpum og snjallsímum.

Verðlækkun hefur orðið á fötum frá síðasta ári vegna afnáms tolla um síðustu áramót. Líkur eru á að sala á fötum aukist að magni til fyrir jólin en á móti kemur að mun hagstæðara hefur orðið fyrir Íslendinga að kaupa vörur í útlöndum. Því má gera ráð fyrir að vinsældir þess að kaupa föt í útlöndum minnki ekki fyrir þessi jól.

Áberandi hefur verið að jólaverslun er að færast meira á netið en ætla má að hluti neytenda kaupi allar eða hluta jólagjafa á netinu, ýmist frá erlendum eða innlendum netverslunum. Velta netverslana fyrir jólin í fyrra var 14,6 prósentum meiri en árin á undan og gera má ráð fyrir aukningu í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×