Fótbolti

Líf eftir Lokeren hjá Leekens

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georges Leekens reynir að segja leikmanni Lokeren til.
Georges Leekens reynir að segja leikmanni Lokeren til. Vísir/Getty
Georges Leekens var látinn fara frá Íslendingaliðinu Lokeren í vikunni og Arnar Þór Viðarsson tók við liðinu. Arnar Þór mun stýra Lokeren tímabundið á meðan leit af nýjum þjálfara stendur yfir.

Georges Leekens var hinsvegar ekki lengi atvinnulaus. Hinn 67 ára gamli Belgi er á leiðinni til Alsír þar sem hann mun ganga frá samningi við alsírska knattspyrnusambandið.

Leekens verður eftir það landsliðsþjálfari Alsíringa en þetta er ekki fyrsta landsliðið sem hann þjálfar og ekki einu sinni í fyrsta sinn sem hann tekur við landsliði Alsír.

Georges Leekens var landsliðsþjálfari Belga frá 1997 til 1999, hann þjálfaði Alsír í stuttan tíma 2003, var með belgíska landsliðið aftur frá 2010 til 2012 og þá tók hann við landsliði Túnis 2014 og þjálfaði það til ársins 2015.

Georges Leekens var búinn að vera með Lokeren frá 2015 þegar hann og forráðamenn félagsins komust að samkomulagi um starfslok.

Landslið Alsír er eins og er í 35. sæti á Styrkleikalista FIFA en liðið var í fimmtánda sætinu fyrir aðeins tveimur árum síðan.

Serbneski þjálfarinn Milovan Rajevac hætti með landslið Alsír eftir aðeins tvo leiki fyrr í þessum mánuði. Hann hafði tekið við af Christian Gourcuff sem hætti í apríl. Georges Leekens verður því þriðji landsliðsþjálfari Alsírs á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×