Viðskipti innlent

Bankinn slakar ekki á klónni

Hafliði Helgason skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að til skamms tíma þurfi eitthvað mikið að fara úrskeiðis til að bankinn hækki vexti.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að til skamms tíma þurfi eitthvað mikið að fara úrskeiðis til að bankinn hækki vexti. vísir/stefán
Seðlabankinn ákvað að slaka ekki á klónni í stjórn peningamála og hélt stýrivöxtum sínum óbreyttum í gær og verða þeir áfram 5,25%. Víða voru væntingar á markaði um að bankinn myndi lækka vexti. Tónninn er hins vegar að aðhalds sé þörf áfram og ástæða sé til að beina auknu svigrúmi í hagkerfinu í sparnað fremur en í neyslu.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir stefna í mikinn hagvöxt á næsta ári. „Það eru horfur á því að hagvöxtur verði meiri en bankinn spáði í ágúst og í ríkari mæli er þessi hagvöxtur borinn uppi af innlendri eftirspurn, enda jókst hún um 10% á fyrri hluta þessa árs,“ segir hann.

Bankinn spáir nú 5% hagvexti á þessu ári og 4% vexti hagkerfisins á næsta ári. Störfum hefur fjölgað mikið, en á móti kemur innflutningur vinnuafls sem hægir á þrýstingi í hagkerfinu.

Samhliða vaxtaákvörðun bankans komu Peningamál út þar sem birtur er rökstuðningur fyrir vaxtaákvörðun og hagspá bankans. Bankinn gerir ráð fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði bankans fram á mitt næsta ár, en muni síðan verða á bilinu 2,5 til 3% út spátímann.

Þrátt fyrir viðunandi verðbólguhorfur er það niðurstaða peningastefnunefndar að ekki sé tilefni til vaxtalækkunar. Sú ávörðun er tekin miðað við áhættumat og hagspá bankans. Þar við bætast aðrir þættir svo sem óvissa um stefnu í ríkisfjármálum sem væntan­lega verður viðvarandi þar til tekist hefur að koma saman nýrri ríkisstjórn. Þá er óvissa um þróun í kjaramálum í kjölfar ákvörðunar kjararáðs og óvissa um þróun alþjóðamarkaða.

Bankinn gerir nú gengisspá en seðlabankastjóri lagði áherslu á að erfitt sé að spá um þróun gengis og eignaverð. Gert er ráð fyrir áframhaldandi styrkingu, en það hægi á henni í forsendum spár­innar.

Már sagði að peningastefnan væri hvað nafnvexti varðaði í hlutlausum gír. Vextir gætu hækkað eða lækkað eftir því hvernig spilaðist úr óvissuþáttunum og framvindu efnahagsmála. Hann sagði að miðað við spá bankans til skemmri tíma þyrfti eitthvað mikið að gerast til að vextir hækkuðu. „Þá þarf eitthvað að fara mikið úrskeiðis í kjaramálum eða stefnu í ríkisfjármálum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×