Þyrla Landhelgisgæslunnar er um þessar mundir á leið á Starmýrartanga við Álftafjörð þar sem vegfarendur fundu gamalt tundurdufl í gær. Duflið er talið breskt, úr seinni heimsstyrjöld og inniheldur sennilega 225 kíló af sprengiefninu TNT.
Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir að dufl hafi nokkrum sinnum í gegnum tíðina fundist í sandfjörunni á Starmýrartanga. Þekkt er að dufl hafi rekið þangað á stríðsárunum í brimi og grafist í sandinn, þar sem þau færast lítið og varðveitast vel.
„Þetta hefur rekið á land einhvern tímann í kringum 1950 eða eitthvað,“ segir Sigurður um duflið, sem vegfarendur komu auga á í fjörunni í gær. „Það var ákveðið að bregðast strax við á meðan þetta væri ofan jarðar, þetta gæti farið í næsta brimi eða hvenær sem er.“
Síðast þegar Sigurður heyrði í teyminu var þyrlan að taka eldsneyti á Höfn í Hornafirði. Að sprengja duflið tekur um klukkutíma ef allt gengur eftir samkvæmt áætlun. Sigurður segir að það taki þó lengri tíma ef það þarf að opna duflið.
„Stundum koma nokkur á ári, stundum líða ár þar sem það finnst ekki neitt,“ segir Sigurður, aðspurður hversu sjaldgæfir þessir fundir séu. „Ég fór einu sinni á þetta svæði fyrir mörgum árum og þá tókum við fimm dufl í einu.“
Karl Einarsson er einn þeirra sem komu auga á duflið í gær og hann tók myndina með þessari frétt.
Breskt tundurdufl fannst við Álftafjörð
Bjarki Ármannsson skrifar
