Skoðun

Ekki láta aðra smita þig

Ari Þórðarson skrifar
Allir sem reka fyrirtæki vita að fjarvistir starfsmanna vegna veikinda skapa vandræði, tefja verk og hafa því afar neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækjanna. Sama gildir um börn sem veikjast í skólanum, enda þurfa foreldrar gjarnan að vera frá vinnu til að sinna veikum börnum. Til verður keðjuverkun þar sem álag á þá starfsmenn sem eru við hestaheilsu eykst vegna fjarveru samstarfsfólks. Það sama fólk á á hættu að verða veikt vegna mögulegs smits frá öðrum starfsmönnum.

Margir vinnuveitendur gera sitt til að reyna að draga úr veikindum starfsmanna, til dæmis með því að bjóða upp á flensusprautur, hvetja til handþvotta og fleira. Fáir átta sig á mikilvægi ræstinga á vinnustöðum í þessu samhengi.

Það er augljóst heilbrigðismál að þrífa í kringum sig. Með reglulegum ræstingum með réttum hreinsiefnum og aðferðum má draga úr sýklaflórunni sem herjar á ónæmiskerfið. Hvort sem það er á vinnustaðnum eða í skólanum ættu stjórnendur að leggja ríka áherslu á reglulegar ræstingar sem hluta af áherslu á heilbrigði starfsmanna.

Um 44% mættu veik til vinnu

Það er ekki auðvelt að sjá umfang vandamálsins, sem gæti verið hluti af skýringunni á því hversu mikið kæruleysi virðist ríkja hvað gæði ræstinga varðar. Í kjarakönnun BHM sem gerð var 2014 kom fram að 44,3% þeirra sem þátt tóku í könnuninni höfðu mætt veikir til vinnu á 12 mánaða tímabili. Litlu færri, eða 43,9%, höfðu verið frá vinnu vegna eigin veikinda eða veikinda barna án þess að vinna heima.

Nú er óvarlegt að áætla að hlutfallið sé eins í öllum geirum samfélagsins. En sé það eitthvað í líkingu við þetta þýðir það að af tæplega 190 þúsund vinnandi manns eru um 83 þúsund þeirra frá vinnu í einn eða fleiri daga á hverju ári.

Það þýðir líka að svipaður fjöldi mætir veikur í vinnuna, með tilheyrandi smithættu, samanber áðurnefnda könnun. Bakteríur eiga greiða leið á milli fólks, hvort sem það er á leikskólanum, í kaffiteríunni eða á salerninu.

Hreinlæti er augljóst heilbrigðismál enda ljóst að veikindi starfsfólks sem mætir veikt til vinnu getur skapað mikla smithættu. Sé hreinlæti ábótavant hefur það beinar afleiðingar á fjarveru starfsmanna. Þessi keðjuverkun dregur úr framleiðni fyrirtækja og dregur atvinnulífið niður.

Skammsýnin ræður för

Þá kemur að þætti stjórnenda sem sjá um kaup á ræstingu í skólum og öðrum vinnustöðum. Þar er víða pottur brotinn. Margir leggja ofur áherslu á lágt verð en láta sig litlu skipta hvernig gæði ræstinganna eru svo framarlega sem einhver lágmarksskilyrði eru uppfyllt.

Þarna ræður skammsýni alltof oft för enda geta krónur sem fara í að bæta ræstingu komið margfalt til baka ef þær draga úr veikindum þeirra sem starfa í því umhverfi sem ræst er, hvort sem það eru starfsmenn á vinnustað eða börn í leikskólum, grunnskólum eða á öðrum skólastigum.

Það sama gildir um ræstingar og matarinnkaup. Við kaupum ekki alltaf ódýrasta matinn sem í boði er, nema við séum illa stödd fjárhagslega. Við skoðum innihaldið og veljum hollan og góðan mat frekar en ódýra og lélegri vöru. Það gerum við heilsu okkar vegna. Á sama hátt og við horfum á gæði matarins sem við borðum ættum við að horfa á gæði ræstinga í umhverfi okkar.

Skaðleg stefna

Við þurfum að breyta því viðhorfi sem ríkjandi er í samfélaginu til ræstinga og horfa á gæði ekki síður en verð. Þannig geta stjórnendur fyrirtækja bætt ræstingu og dregið úr fjarvistum vegna veikinda. Það er skaðleg stefna að kaupa alltaf ódýrustu ræstingu sem völ er á, án tillits til gæða. Þeirri skaðlegu stefnu þarf að breyta.




Skoðun

Sjá meira


×