Lionel Messi og Cristiano Ronaldo virðast skora mörk eins og að drekka vatn. Þeir slá hvert markametið á fætur öðru í öllum deildum og nú nálgast þeir einn áfanga saman. Sky Sports greinir frá.
Barcelona mætir Athletic Bilbao í kvöld í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum spænska Konungsbikarsins, en skori Argentínumaðurinn verða hann og Ronaldo í heildina búnir að skora 1.000 mörk á ferlinum fyrir félagslið og landslið.
Messi er búinn að skora 481 mark, þar af 49 fyrir argentínska landsliðið, síðan hann skoraði sitt fyrsta fyrir Barcelona þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-0 sigri á Albacete í maí 2005.
Cristiano Ronaldo er búinn að skora 518 mörk á sínum glæsta ferli, en það fyrsta skoraði hann fyrir Sporting í heimalandinu í október 2002. Hann setti síðan 118 fyrir Manchester United áður en hann gekk í raðir Real Madrid árið 2009.
Messi og Ronaldo, sem hafa samanlagt verið kosnir fótboltamenn ársins átta sinnum, berjast vanalega um öll einstaklingsverðlaun sem eru í boði en þennan áfanga geta þeir átt saman.
Mörk Messi og Ronaldo:
999: Heildarfjöldi marka þeirra tveggja á ferlinum í 1.384 leikjum
Lionel Messi:
Leikir/mörk fyrir Barcelona: 506/432
Leikir/mörk fyrir Argentínu: 105/49
Heildarfjöldi leikja/marka: 611/481
Cristiano Ronaldo:
Leikir/mörk fyrir Sporting: 31/5
Leikir/ fyrir Manchester United: 292/118
Leikir/mörk fyrir Real Madrid: 327/340
Leikir/mörk fyrir Portúgal: 123/55
Heildarfjöldi leikja/marka: 773/518
