Innlent

Hinn grunaði þóttist þurfa að lesa af mælum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn bankaði upp á hjá konunni um áttaleytið á mánudagsmorgun og sagðist þurfa að lesa af mælum.
Maðurinn bankaði upp á hjá konunni um áttaleytið á mánudagsmorgun og sagðist þurfa að lesa af mælum. Vísir/Getty
Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og HS Veitna segja starfsmenn á þeirra vegum ekki banka upp á heima hjá fólki snemma á morgnana. Þá séu starfsmenn ávallt einkennisklæddir og með starfsmannaskírteini. Lögregla leitar manns sem grunaður er um að hafa ráðist á móður sem var ein heima með ungbarn sitt í Móabarði í Hafnarfirði um áttaleytið á mánudagsmorgun.

Maðurinn sagðist vera mættur til að lesa af mælum, konan bauð honum inn og í kjölfarið á hann að hafa ráðist á konuna. Grunur leikur á að ekki aðeins sé um líkamsárás að ræða heldur einnig kynferðisbrot. Lögregla verst allra fregna af málinu en samkvæmt heimildum Vísis er það þó í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild.

Send var út tilkynning í gær með lýsingu á manninum sem talinn er vera um 180 sm á hæð, fölleitur en hann var dökkklæddur með svarta hanska og húfu. Líklegur aldur er á milli 35 og 45.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.
Starfsmenn merktir í bak og fyrir

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir lögreglu ekki hafa leitað til fyrirtækisins vegna málsins.

Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, er annað tveggja fyrirtækja sem lesa af mælum í norðurhluta Hafnarfjarðar. Hitt fyrirtækið er HS Veitur. Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, hafði sömuleiðis ekki heyrt af málinu.

Eiríkur segir sitt fólk alltaf einkennisklætt, með starfsmannaskírteini með mynd og fatnaðurinn sé mjög sýnilegur. Auk þess aki starfsmenn um á merktum bílum. Þá sé ekki bankað upp á heima hjá fólki fyrr en klukkan 10.

Starfsmenn lesi hins vegar stundum af mælum hjá fyrirtækjum fyrr um morguninn.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna.Mynd af heimasíðu HS Veitna
Gera ekki fólki rúmrusk

Júlíus segir svipaða sögu af mælalestri HS Veitna. Starfsmenn séu einkennisklæddir og vísa starfsmannaskírteini séu þeir beðnir um það.

Hann segir starfsfólk yfirleitt ekki gera fólki rúmrusk en fara frekar í fyrirtæki á morgnana.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu á skrifstofutíma í síma 444 1000.

Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um að Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sæi um mælingar í Hafnarfirði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×