Innlent

Heimilt að taka meiri tollfrjálsan bjór með úr fríhöfninni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr fríhöfninni.
Úr fríhöfninni. vísir/andri marinó
Í gær var frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki samþykkt en hún felur í sér breytingu á hve mikið magn af tollfrjálsu áfengi má koma með inn í landið. Breytingunni hafði verið mótmælt af hálfu ÁTVR og ISAVIA.

Nýju lögin taka gildi um leið og þau hafa verið undirrituð af forseta Íslands og birt. Í þeim felst að í stað þess að kveðið sé á um ákveðnar samsetningar af áfengi sem heimilt er að koma með inn í landið eru ferðamenn, skipverjar og starfsfólk flugfélaga nú bundnir af einingum. Ein eining er skilgreind sem 0,25 lítrar af áfengi sterkara en 21 prósent, ein léttvínsflaska eða þrír lítrar af bjór eða áfengum gosdrykkjum.

Myndin sýnir gamla kerfið sem er orðið úrelt.mynd/átvr
Í breytingunni felst að flugverjar mega taka fimm einingar með inn í landið hafi ferð þeirra varað fimmtán daga eða lengur. Ella er þeim heimilt á taka þrjár einingar. Skipverjar mega taka ellefu einingar hafi ferðin tekið fimmtán daga eða lengur en annars sex einingar. Hinn almenni ferðalangur má taka sex einingar tollfrjálst inn í landið. 

Fyrir hinn almenna ferðamanna þýðir breytingin að hann má nú taka 36 hálfslíters bjóra með sér í gegnum fríhöfnina í stað 24 bjóra áður. Séu hver bjórflaska hins vegar 0,33 lítrar að stærð má hann taka 54 slíka með til landsins. Þetta dæmi gildir sé öllum kvótanum varið í bjór eða áfenga gosdrykki.

Ákveði fólk að verja öllum kvótanum til kaupa á sterku áfengi þýðir það að unnt er að taka 1,5 lítra af slíku til landsins. 4,5 lítrar af léttvíni fást sér öllum kvótanum varið til þess. Þetta er aukning frá eldri lögum þar sem að mesta lagi mátti taka inn lítra af sterku áfengi eða þrefalt það magn af léttvíni. 

Þó er um vissa skerðingu að ræða. Tveir eldri möguleika sem felldir hafa verið úr lögunum hefðu í nýja kerfinu jafngilt sjö og 7,33 einingum. Þá mátti taka lítra af sterku áfengi (fjórar einingar) auk níu lítra af bjór (þrjár einingar) eða lítra af sterku áfengi (fjórar einingar), lítra af léttvíni (1,33 eining) og tvo lítra af bjór (tvær einingar).

Búist er við því að nýju lögin verði til þess að sala Vínbúðanna dregst saman um eitt til tvö prósent og að tekjur ríkissjóðs dragist saman um 200 milljónir. Hins vegar er búist við því að það muni skila sér til baka með auknum tekjum í komuverslun fríhafnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×