Enski boltinn

Ár síðan að eigendur Leicester tóku risaákvörðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Pearson og Jamie Vardy.
Nigel Pearson og Jamie Vardy. Vísir/AFP
30. júní 2015 er stór dagur í sögu Leicester City en fyrir tólf mánuðum héldu eflaust margir að þar væru forráðamenn félagsins að skjóta sig í fótinn. Nú geta þeir hinsvegar haldið upp á afmæli einnar bestu ákvörðunar í manna minnum.

Þetta er dagurinn þegar eigendur Leicester City ráku manninn sem hafði á mánuðunum á undan séð til þess að félagið var enn í deild þeirra bestu.

Nigel Pearson hafði gert frábæra hluti á seinni hluta tímabilsins 2014-15 en Leicester City hafi hreinlega risið upp frá dauðum á vormánuðunum. Þennan dag fyrir ári síðan þurfi Nigel Pearson að taka pokann sinn þar sem að eigendurnir töldu sig ekki geta unnið lengur með honum.

Rúmum þremur mánuðum fyrr hafði Leicester City tapað 4-3 á móti Tottenham og var þá aðeins búið að ná í 2 stig í síðustu 9 leikjum sínum. Liðið sat í botnsæti deildarinnar, þremur stigum fyrir neðan næsta lið og sjö stigum frá öruggu sæti. Næstu tveir mánuðir voru hinsvegar engu líkir.

Leicester City vann sjö af síðustu átta leikjum sínum og tapaði ekki aftur á tímabilinu. Leicester City endaði í 14. sæti og í augum margra var Nigel Pearson knattspyrnustjóri tímabilsins.

Þegar fréttirnar bárust af brottrekstri Nigel Pearson voru eflaust margir búnir að afskrifa lið Leicester City. Eigendur félagsins fundu hinsvegar rétta manninn í Claudio Ranieri.

Claudio Ranieri tók við liðinu 13. júlí og við tók eitt mesta ævintýri í sögu fótboltans því Leicester City fór alla leið og varð enskur meistari í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×