Fótbolti

Aron Einar: Fannst við fá fleiri færi

Arnar Björnsson skrifar
Það voru blendnar tilfinningar hjá fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni í leikslok eftir 1-1 jafntefli gegn Úkraínu í kvöld.

Aroni fannst jafnteflið kannski sanngjarnt, en hefði þó viljað stela sigrinum. Hann segir þó að það komi ekki margir Úkraínu og yfirspili þá.

„Mér fannst við fá fleiri færi, en þeir stjórnuðu leiknum betur. Þeir voru meira með boltann, en stig er jákvætt eftir á hyggja," sagði Aron Einar við íþróttadeild 365 í lok leiks.

„Þeir klúðra víti, en samt sem áður fengum við færi til þess að klára leikinn. Við þurfum að klára þau ef við ætlum að sigra svona sterkt lið á útivelli, en það eru ekki mörg lið sem koma hingað og yfirspila þá."

Jón Daði Böðvarsson fékk dauðafæri skömmu eftir að Alfreð kom Íslandi yfir og Ísland hefði getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik áður en Úkraínu-menn náðu að jafna.

„Það er það sem við þurfum að læra af. Við töluðum um það í klefanum að drepa leikinn og við erum alltaf að læra. Stig er stig og við erum svekktir eftir á líka, en kannski var þetta bara sanngjarnt."

Leikið var fyrir luktum dyrum á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði í kvöld vegna óláta stuðningsmanna Úkraínu í vináttulandsleik fyrr á þessu ári. Aron Einar segir að Ísland hafi nýtt sér það ívið betur og það hafi hjálpað til í varnarleiknum hjá liðinu í kvöld.

„Mér fannst við nýta okkur það aðeins betur en þeir, en þeir voru meira með boltann og við vorum meira í varnarsinnuðu hlutverki. Við náðum að koma skilaboðunum á framfæri og þannig unnum við saman."

„Það er skrýtið að spila á 70 þúsund manna velli án áhorfenda, en þannig var bara staðan í dag og það er ekkert við því að gera," sagði fyrirliðinn að lokum við íþróttadeild 365.


Tengdar fréttir

Birkir Már: Eins og að spila á Íslandi

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska landsliðsins, segir að Ísland hafi dottið of mikið niður eftir að hafa fengið jöfnunarmarkið á sig gegn Úkraínu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×