Viðskipti innlent

Brot í Kaupþingsmáli „með þeim alvarlegustu sem dæmi eru um“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir Hreiðari Má Sigurðssyni fyrrverandi forstjóra Kaupþings og sneri við sýknudómum yfir tveimur öðrum fyrrverandi starfsmönnum bankans í stærsta efnahagsbrotamáli sem komið hefur til kasta dómstóla hér á landi.

Í dómi Hæstaréttar segir að brotin í málinu séu með þeim alvarlegustu sem dæmi eru um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.

Níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings banka voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun fyrir viðskipti bankans með eigin hlutabréf í sjálfvirkum pörunarviðskiptum Kauphallar Íslands og kauphallarinnar í Svíþjóð á tímabilinu 1. nóvember 2007 til. 8. október 2008.

Voru ákærðu í málinu sökuð um að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að tryggja óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum sem gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð þeirra ranglega og misvísandi til kynna.

Í ákæru kom fram að kaup deildar eigin viðskipta í Kaupþingi banka umfram sölu á íslenska markaðnum námu 41% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi. Kaup umfram sölu á sænska markaðnum námu 23% af heildarveltunni með hlutabréf í Kaupþingi. 

Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall afréðu stjórnendur Kaupþings að losa bankann við hlutabréfin svo unnt væri að halda áfram hinum umfangsmiklu kaupum á hlutum í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Var það gert með sölu hlutabréfa í bankanum í stórum utanþingsviðskiptum til þriggja félaga fyrir tilstilli hlutabréfamiðlunar bankans með loforði til kaupenda um fulla fjármögnun bankans í viðskiptunum. 

Ákæruvaldið taldi að með því að standa að sölu hlutabréfanna með þessum hætti til félaganna þriggja hafi ranglega verið látið líta svo út að þau hefðu lagt fé til kaupanna og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar reyndin hafi verið sú að kaupin voru að fullu fjármögnuð með lánveitingum frá bankanum sem bar sem seljandi áfram fulla markaðsáhættu af hlutabréfunum, enda voru ýmist litlar eða engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hlutabréfin sjálf.

Þessi viðskipti hafi því byggst á blekkingum og sýndarmennsku og þannig gefið eftirspurn eftir hlutabréfunum ranglega til kynna. Því hefði líka verið um markaðsmisnotkun að ræða við sölu á hlutabréfum til umræddra þriggja félaga. Þá var einnig ákært fyrir umboðssvik vegna lánveitinga Kaupþings banka til umræddra einkahlutafélaga í tengslum við kaup á bréfunum.

Ákærðu í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Snær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson, Magnús Guðmundsson, Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur voru öll ákærðu sakfelld nema Björk sem var sýknuð og þá var ákæru á hendur Magnúsi vísað frá að hluta og hann sýknaður að hluta. Hreiðari Má var ekki gerð viðbótar refsing í héraði vegna dóms sem hann hlaut í Al-Thani málinu.

Í dag var kveðinn upp dómur í málinu í Hæstarétti. Hæstiréttur þyngdi dóminn yfir Hreiðari Má og dæmdi hann í sex mánaða hegningarauka ofan á fimm og hálfs árs fangelsi sem hann hafði áður hlotið. Björk Þórarinsdóttir sem var sýknuð í héraði var sakfelld fyrir tilraun til umboðssvika sem reyndist ónothæf og var henni ekki gerð refsing. Þá var Magnús Guðmundsson sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun en ekki gerð viðbótarrefsing. Dómur yfir öðrum ákærðu var staðfestur. 

Björn Þorvaldsson saksóknari í málinu kynnir sér dóm Hæstaréttar að lokinni dómsuppkvaðningu í dag. Hann kvaðst sáttur með niðurstöðuna.
Í dómi Hæstaréttar segir:

„Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að brot samkvæmt I. og II. kafla ákæru voru umfangsmikil, þaulskipulögð og drýgð í samverknaði og af einbeittum ásetningi. Beindust þau í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár. Voru brotin með þeim alvarlegustu sem dæmi eru um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“

Björn Þorvaldsson saksóknari í málinu kvaðst sáttur við niðurstöðuna að lokinni dómsuppkvaðningu enda tók Hæstiréttur undir nær öll sjónarmið ákæruvaldsins í málinu.

Um er að ræða umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur til kasta dómstóla hér á landi þegar höfð er hliðsjón af fjölda ákærðu, flækjustigi ákæruatriða og gögnum málsins. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×