Viðskipti innlent

Enginn vill kaupa Twitter

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jack Dorsey, stofnandi og framkvæmdastjóri Twitter.
Jack Dorsey, stofnandi og framkvæmdastjóri Twitter. Vísir/EPA
Hlutabréf í samfélagsmiðlinum Twitter hækkuðu á ný í gær eftir hrun á mánudag. Ekki hefur þó gengið að vinna upp það tap á markaðsvirði sem hefur orðið eftir að fregnir bárust af því að Salesforce.com, síðasta fyrirtækið sem lýst hafði áhuga á því að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter, muni líklega ekki gera kauptilboð í fyrirtækið.

Fyrir nokkrum vikum var greint frá því að Salesforce.com, Alphabet (móðurfélag Google) og Walt Disney Co. hefðu áhuga á að kaupa Twitter og væru að vinna með bönkum að kauptilboði. Um helgina greindi svo Bloomberg frá því að líklega myndi ekkert af fyrirtækjunum gera kauptilboð.

Gengi hlutabréfa í Twitter hrundi frá miðvikudegi í síðustu viku fram til gærdagsins um tæplega þrjátíu prósent, þar á meðal um 12 prósent á mánudaginn.

Markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 12 milljarðar dollara, samanborið við 53 milljarða dollara þegar hlutabréfaverðið náði hæstum hæðum í desember 2013.

Twitter hefur átt í erfiðleikum með að fjölga notendum og auka veltu sína. Forsvarsmenn fyrirtækisins vildu fá kauptilboð áður en greint verður frá uppgjöri þriðja ársfjórðungs þann 27. október næstkomandi.

Reuters greinir frá því að margir fjárfestar og greiningaraðilar telji að framkvæmdastjóri Twitter, Jack Dorsey, sé ekki með varaplan ef kauptilboð berst ekki.


Tengdar fréttir

Vandræði Twitter halda áfram

Hlutabréf í fyrirtækinu hafa lækkað enn frekar í verði eftir að mögulegir kaupendur eru sagðir hafa misst áhugann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×