Viðskipti innlent

Krónan mun sterkari en staðist getur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Óvíst er hvaða áhrif áframhaldandi styrking krónunnar mun hafa á ferðaþjónustu hér á landi.
Óvíst er hvaða áhrif áframhaldandi styrking krónunnar mun hafa á ferðaþjónustu hér á landi. Vísir/Ernir
Að mati Greiningardeildar Arion banka er krónan allt að tíu prósentum sterkari en staðist getur til lengri tíma. Þetta kemur fram í Hagspá 2016-2019: Fljúgum ekki of nálægt sólinni.

Krónan hefur styrkst verulega á árinu, eða um 15 prósent. Spáð er að hún muni styrkjast áfram á næstu mánuðum, sem mun að öllum líkindum grafa undan gengi hennar síðar. Greiningardeildin spáir kröftugum hagvexti í ár og á næsta ári, 4,7 prósent og 5,2 prósent, en að hægja taki á vextinum þegar fram í sækir. Hagvöxturinn verður dreginn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu.

Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.
„Ef fram heldur sem horfir og raungengið verður svona sterkt, þá mun það auka innflutning og rýra samkeppnisstöðuna hvað útflutning varðar. Að öllum líkindum mun gengið þá gefa eitthvað eftir,“ segir Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.

Raungengið er komið til ársins 2007. Raungengi miðað við laun er 34 prósent yfir langtímameðaltali, og 20 prósent yfir langtímameðaltali miðað við verðlag. Spáð er að raungengi krónunnar verði 22 prósentum yfir meðaltali miðað við verðlag og 44 prósentum yfir meðaltali miðað við laun undir lok spátímans.

Að mati Konráðs gæti þetta haft neikvæð áhrif. „Þetta er varasöm staða, sérstaklega af því að við vitum ekki hvaða áhrif þetta hefur á stærsta útflutningsveginn, ferðaþjónustu. En það kannski gefur manni smá von um að við séum aðeins of svartsýn að þegar krónan var sem sterkust frá 2004 til 2007 fjölgaði ferðamönnum um rúmlega 30 prósent. Það er því ekki víst að ferðamönnum fækki verulega út af styrkingu krónunnar. En þetta verður engu að síður risastór prófraun fyrir ferðaþjónustuna, ef þetta er gengi sem er komið til að vera.“

Ísland er nú dýrara en Noregur. Verðlag hér á landi er sjö prósentum lægra en í Sviss sem er dýrasta land í heimi miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Krónan er orðin það sterk að það eru fáar þjóðir sem toppa Ísland núna,“ segir Konráð.

Það eru margir óvissuþættir varðandi áframhaldandi þróun gengisins. Að mati Konráðs verður þeim vonandi betur svarað þegar Seðlabankinn ákveður hvað hann ætli að gera 16. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×