Viðskipti innlent

OZ selur og dreifir röð erlendra stórmóta í vetraríþróttum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ, til hægri.
Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ, til hægri. Mynd/OZ
Tilkynnt var á alþjóðlegu íþróttaráðstefnunni Sportel í Monakó að íslenska streymisveitan OZ, sem rekur meðal annars stafræna netdreifingu stöðva 365, hefði verið valin til að selja og dreifa röð erlendra stórmóta í vetraríþróttum undir merkjum Visma Ski Classics.

Fram kemur í tilkynningu að OZ hefur sérhæft sig í þessháttar dreifingu um árabil og færir nú út kvíarnar með sértækri lausn fyrir íþróttaviðburði á heimsvísu.

„Þetta er nýja framlínan í sjónvarpsdreifingu - beinar útsendingar gegn stöku gjaldi eða í áskrift. Árangur aðila s.s. UFC við að beisla þetta nýja tekjutækifæri hefur ekki farið framhjá neinum og eru bæði leyfishafar og hefðbundnar sjónvarpsstöðvar í síauknum mæli að færa sig inn á þessa nýju dreifileiðir. Við hjá OZ teljum okkur hafa margt nýtt fram að færa fyrir íþróttaheiminn og er þessi samningur ákveðin viðurkenning á því“, sagði Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ.

 „Hér er ekki eingöngu verið að nýta nýja og spennandi tækni heldur erum við bæði að þjóna aðdáendum með betri upplifun en fæst í hefðbundinni sjónvarpsdreifingu sem og um leið að uppfylla þá sýn að búa til netsamfélag í kring um viðburðina. Okkur þykir mikið til OZ koma og hlökkum til að vinna með þeim í að koma viðburðunum í allra hendur - og tæki“, sagði David Nilsson, framkvæmdastjóri Visma Ski Classics.

Gefin verða út snjallforrit fyrir iOS, Android og Apple TV en einnig verður þjónustan aðgengileg á vefnum.

Fyrsti viðburðurinn sem nýtir þessa tækni verður Visma Ski Classics Prologue í Pontresina, Sviss og svo strax í kjölfarið 35km Sgambeda-skíðaganga í Livigno á Ítalíu. OZ hefur höfuðstöðvar og þróunarmiðstöð sína í Reykjavík og söluskrifstofu í Stokkhólmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×