Viðskipti innlent

Áfram stefnt að skráningu Arion banka fyrripart 2017

Hafliði Helgason skrifar
Stefna um sölu Arion banka er óbreytt og stefnt að skráningu hans á fyrrihluta næsta árs.
Stefna um sölu Arion banka er óbreytt og stefnt að skráningu hans á fyrrihluta næsta árs. Frettabladid/Anton Brink
Áfram er stefnt að því að skrá Arion banka í kauphöll á næsta ári í kjölfar sölu hlutar bankans. Viðræður hafa verið í gangi milli lífeyrissjóða og Kaupþings um sölu hlutar bankans.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að seljendur þrýsti á um að væntanlegir kaupendur skuldbindi sig í ferlinu sem fyrst og hefur dagsetningin 21. nóvember verið nefnd í því sambandi. Samkvæmt heimildum Markaðarins er slíkt ofsögum samt, en viðurkennt er að þrýstingur sé á um að unnið sé hratt. Engar dagsetningar hafi verið nefndar, en stefnt hefur verið að því að selja hlut í bankanum með útboðsfyrirkomulagi til fagfjárfesta og almennings og skrá Arionbanka á markað í kjölfarið. Sú stefna er að sögn óbreytt.

Vandinn sem blasir við kaupendum nú er margvísleg óvissa í rekstrarumhverfi bankans. Þar vegur þungt óvissa um hvaða ríkisstjórn tekur við og hver verði vilji hennar til að breyta skatta­umhverfi banka, en gert er ráð fyrir sérstökum bankaskatti í langtímaáætlun ríkisfjármála. Þá liggur heldur ekki fyrir hver verður eiginfjárkrafa bankanna, en sjá mátti á uppgjöri Íslandsbanka að þar var sýnd arðsemi eiginfjár miðað við 15 prósenta eiginfjárhlutfall, en núverandi eiginfjárhlutfall bankans er tæp 28 prósent. Allt hefur þetta áhrif á verðmat Arion banka.

Uppgjör bankanna undanfarin misseri hafa litast af einskiptis­liðum vegna uppfærslu eigna sem komu í hlut þeirra við fall fjármálakerfisins. Uppgjörin nú endurspegla orðið betur grunnrekstur fjármálafyrirtækjanna. Arion banki birtir sitt uppgjör í dag.

Allt þetta hefur áhrif á það að kaupendamegin vilja menn flýta sér hægt og ólíklegt verður að teljast að erlendir aðilar sýni mikinn áhuga á að skuldbinda sig án ítarlegrar greiningar á þeim áhættuþáttum sem snúa að rekstrarumhverfi bankanna og íslensku efnahagsumhverfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×