Þýsku risarnir Bayern Munchen eru sagðir vera á höttunum á eftir Jurgen Klopp þjálfara Liverpool til þess að taka við stjórnartaumunum hjá félaginu af Carlo Ancelotti.
Þýsku meistararnir hafa oft farið betur af stað í þýsku deildinni en í ár. Þeir sitja í 2.sæti með 27 stig eftir tólf leiki og eru þremur stigum á eftir nýliðum RB Leipzig sem eru efstir. Þá tapaði liðið fyrir Rostov í Meistaradeildinni í vikunni og það vakti ekki mikla gleði í Bæjaralandi.
Að sögn breskra miðla eru forráðamenn Bayern farnir að líta í kringum sig og þá helst til Liverpool þar sem Jurgen Klopp hefur farið vel af stað með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Stuðningsmönnum liðsins finnst Ancelotti spila af fullmikilli varkárni enda eru þeir góðir vanir eftir árin sem Pep Guardiola stýrði skútunni.
Liverpool eru varla æstir í að sleppa Klopp enda liðið farið mjög vel af stað og situr í 2.sæti úrvalsdeildarinnar með jafn mörg stig og Chelsea sem er í sætinu fyrir ofan. Klopp er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins en hann er á sínu fyrsta heila tímabili með Liverpool.
Það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað sé til í þessum fréttum en líklegt verður að teljast að Ancelotti fái nokkur tækifæri í viðbót til að sanna sig hjá Bayern.
