Viðskipti innlent

Vífilfell skiptir um nafn

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Carlos Cruz forstjóri Coca Cola European Partners Ísland ehf (CCEP)
Carlos Cruz forstjóri Coca Cola European Partners Ísland ehf (CCEP) Vísir / Vífilfell
Vífilfell skiptir um nafn og mun nú heita Coca-Cola European Partners Íslands ehf (CCEP). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Nafnabreytingin mun eiga sér stað í öllum þrettán löndunum þar sem CCEP er með starfsemi sína. Lögð er áhersla á að aðeins um nafnabreytingu sé að ræða og að dagleg starfsemi fyrirtækisins muni ekki breytast. Fyrirtækið mun halda sömu kennitölu og VSK númeri og telst áfram íslenskur lögaðili sem fylgir íslenskum lögum og reglugerðum en því fylgir að fyrirtækið muni greiða skatta sína á Íslandi.

„Forsaga nafnabreytingarinnar er sú að þann 28. maí síðastliðinn var Coca-Cola European Partners plc (CCEP) stofnað eftir sameiningu Coca-Cola Enterprises Inc., Coca-Cola Iberian Partners SA og Coca-Cola Erfrischungsgetränke svo úr varð stærsta sjálfstæða framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki Coca-Cola í heimi, sé miðað við tekjur. Þann 29. júlí keypti hið sameinaða fyrirtæki CCEP svo Vífilfell sem varð við það hluti af samsteypun.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningunni.

CCEP er eitt stærsta fyrirtækið á alþjóðamarkaði og dreifir miklu magni af óáfengri drykkjarvöru um allan heim og þjónustar um 300 milljónir neytenda í Vestur - Evrópu.

„Nafn Vífilfells er samofið sögu Coca-Cola hér á landi enda spannar saga þess næstum 75 ár. Vífilfellsnafnið verður stór hluti af arfleifð Coca-Cola European Partners Ísland og starfsmenn munu leitast við að halda heiðri þess á lofti um ókomin ár. Við erum um leið stolt af því að vera hluti af Coca-Cola European Partners fjölskyldunni og hlökkum til þeirra tækifæra sem bíða okkar. Við munum sinna starfseminni á Íslandi með sömu ástríðu og þjóna viðskiptavinum okkar af sama metnaði og áður. Við teljum að Íslendingar verði fljótir að venjast nýju nafni framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtækis Coca-Cola á Íslandi. Ekki síst þar sem það mun hér eftir innihalda heiti þessa heimsfræga drykkjar.“ segir í tilkynningu Carlos Cruz forstjóra Cocal-Cola European Partners Íslands ehf. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×