Viðskipti innlent

Datasmoothie vinnur til verðlauna í Bretlandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá afhendingu verðlaunanna í London á mánudag.
Frá afhendingu verðlaunanna í London á mánudag.
Íslenska sprotafyrirtækið Datasmoothie hefur unnið ein virtustu verðlaun sem veitt eru á sviði markaðsrannsókna í Bretlandi en verðlaunin voru veitt síðastliðið mánudagskvöld í London. Datasmoothie hreppti fyrstu verðlaun í flokknum Nýsköpun, eða „Technical Innovation“ í verðlaunaafhendingu félags markaðsrannsóknarfyrirtækja í Bretlandi, eða „The Market Research Society“. Svo segir í tilkynningu frá Datasmoothie.

„Datasmoothie hefur þróað ferska og sveigjanlega lausn til þess að birta lifandi skýrslur á tölvum og símum,“ segir í umsögn dómnefndar. „Við vorum hrifin af því hve framtíðarsýn þeirra er skýr og hversu vönduð varan er hvað varðar hreinleika hönnunarinnar.“

Datasmoothie var stofnað snemma ársins 2015 og meðal hluthafa er einn virtasti sprotasjóður Evrópu, Seedcamp. Varan hefur m.a. verið þróuð í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og breska markaðsrannsóknarfyrirtækið YouGov Plc.

Datasmoothie hefur þróað lausn til þess að birta lifandi skýrslur á tölvum og símum.datasmoothie
Geir Freysson, framkvæmdastjóri Datasmoothie, segir verðlaunin vera mikinn feng fyrir fyrirtækið. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að fá svona viðurkenningu á stærstu verðlaunaafhendingu þessa iðnaðar hérna í Bretlandi.“ 

Geir segir gamlar tæknilausnir allsráðandi á sviði markaðsrannsókna.

„Fyrirtæki eru lengi að búa til skýrslur með niðurstöðum rannsókna og viðskiptavinir fá þær afhentar í Powerpoint eða PDF skjölum í stað þess að fá gagnvirkar og lifandi skýrslur eins og hægt er að bjóða uppá á netinu. Þessi verðlaun eru viðurkenning á því að Datasmoothie hefur fundið lausn sem gerir hverjum sem er, óháð tæknikunnáttu, kleift að búa til fallegar og gagnvirkar skýrslur á netinu á mun skemmri tíma en fer í svona skýrslugerð í dag. Og viðskiptavinurinn fær betri þjónustu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×