Viðskipti innlent

Starfsmenn miður sín eftir að öngull fannst í harðfiskpoka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tradex furða sig á því hvernig krókurinn rataði í pokann.
Tradex furða sig á því hvernig krókurinn rataði í pokann. Skjáskot
Starfsmenn Tradex ehf., sem framleiðir og dreifir harðfiskvörum og gæludýravörum úr harðfiski, kanna nú hvernig öngull rataði í eina af vörum fyrirtækisins.

Alexandra Berg skrifar á Facebook í morgun að hún hafi keypt hundaharðfisk í Bónus á dögunum. Hún hafi gefið hundi sínum bita en að ekki hafi liðið á löngu áður en hafi farið að kippast til og spýtt bitanum aftur út úr sér. Það hafi verið þá sem hún tók eftir önglinum í harðfiskbitanum.

„Erum heppin að ekki fór verr,“ segir Alexandra. „Hann hefði auðveldlega getað kyngt önglinum eða hann krækst í munninn á honum,“ segir hún ennfremur og bætir við að hún hyggist skila pokanum í verslun Bónuss í dag.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Tradex, skrifar við færslu Alexöndru að starfsmenn fyrirtækisins séu miður sín vegna atviksins og axli fulla ábyrgð á málinu. Þetta eigi ekki að geta gerst þar sem þau renni pokunum í gegnum málmleitartæki áður en vörurnar rati í verslanir.

„Getum ekki tekið til baka að þetta gerðist, þökkum fyrir að hundurinn skaðaðist ekki,“ segir Halldór og segir að nú verið farið yfir málið af fullri alvöru. „Þetta á ekki að koma fyrir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×