Viðskipti innlent

Már: Hægt að bregðast við örum vexti ferðaþjónustu telji menn hann vandamál

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að mikill og hraður vöxtur ferðaþjónustunnar setji mikinn þrýsting á hagkerfið og styrking krónunnar sé aðallega til komin vegna hans. Ekki sé við peningastefnuna að sakast. Stjórnvöld hafi úrræði til að bregðast við örum vexti ef þau skilgreini hann sem vandamál.

Eigendur fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa áhyggjur af of mikilli styrkingu íslensku krónunnar. Bandaríkjadollar kostaði 129 krónur fyrir sléttu ári en kostar 112 krónur núna. Það er lækkkun upp á rúm 13 prósent. Evran kostaði 141 krónu fyrir sléttu ári en kostar 119 krónur núna. Það er veiking evru gagnvart krónu um 15,8 prósent. Hér má líka nefna sterlingspundið sem hefur lækkað um hátt í 30 prósent á árinu gagnvart krónu.

Á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar fyrr í þessum mánuði lýstu eigendur fyrirtækja í ferðaþjónustu áhyggjum af öðru hruni í efnahagslífinu vegna of mikillar gengisstyrkingar og kölluðu eftir því að Seðlabankinn festi gengið til að afstýra því.

„Þessi styrking á krónunni hefur ekkert með peningastefnuna að gera. Hún hefur hins vegar allt með ferðaþjónustuna að gera. Stjórnvöld geta dregið úr þeim mikla þrýstingi sem er á hagkerfið í gegnum þann hraða vöxt sem þar er,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Már segir að stjórnvöld hafi ýmist tæki til að hægja á of hröðum vexti ef menn skilgreini hann á annað borð sem vandamál.

„Það hefur mjög mikið að segja hvað það er mikið framboð af ódýru flugi til landsins. Þar hafa menn kannski eitthvað svigrúm. Stefnan varðandi AirBnb er miklu frjálslyndari en víða annars staðar, það setur álag á húsnæðismarkaðinn og stuðlar að gjaldeyrisinnflæði. Ríkisfjármálin gætu veitt meiri stuðning og svona má halda áfram. Þarna væri verið að gera eitthvað sem raunverulega myndi skipta máli til að draga úr þessari áhættu, ef menn hafa áhyggjur af henni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×