Viðskipti innlent

What Works ráðstefnan að nýju í Reykjavík

Hafliði Helgason skrifar
Michael Porter var gestur á síðustu What Works ráðstefnu, en hann er einn þekktasti fræðimaður á sviði viðskipta í heiminum og eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. Vonir aðstandenda ráðstefnunnar standa til þess að hún verði árlegur viðburður og mótvægi við ráðstefnuna í Davos þar sem leiðtogar í heimi viðskipta- og efnahagslífs hittast árlega.
Michael Porter var gestur á síðustu What Works ráðstefnu, en hann er einn þekktasti fræðimaður á sviði viðskipta í heiminum og eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. Vonir aðstandenda ráðstefnunnar standa til þess að hún verði árlegur viðburður og mótvægi við ráðstefnuna í Davos þar sem leiðtogar í heimi viðskipta- og efnahagslífs hittast árlega. Vísir/Anton Brink
Í apríl næstkomandi verður Reykjavík annað árið í röð vettvangur stórrar alþjóðlegrar ráðstefnu um hvaða aðferðir gefast best til að efla félagslegar framfarir. Síðastliðið vor var Harvard-prófessorinn Michael Porter aðalframsögumaður ráðstefnunnar, sem kallast What Works og fór fram í Hörpu.

Til grundvallar er mælikvarðinn um félagslegar framfarir (Social Progress Index), sem er nýleg aðferð til að mæla hagsæld þjóða. Mælikvarðinn er tekinn saman af stofnuninni Social Progress Imperative sem hefur aðsetur í Washington og London „Við vonum svo sannarlega að þetta sé komið til að vera,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Cognito og fulltrúi SPI á Íslandi sem hefur veg og vanda af ráðstefnunni hér á landi. Hún segir að á ráðstefnuna sé von á helstu leiðtogum úr háskólum, stjórnmálum og viðskiptalífi heimsins á sviði samkeppnishæfni þjóða og stefnumótunar. Endan­legur listi fyrirlesara liggur ekki fyrir, en búast má við að þungavigtarfólk í fræðum, stjórnmálum og viðskiptum mæti á ráðstefnuna sem mun standa í þrjá daga.

What Works ráðstefnan er hugsuð sem ákveðið mótvægi við hina árlegu Davos-ráðstefnu þar sem athyglin er fyrst og fremst á hagstærðir og efnahagsskipan þjóða í stað þess að skoða hvað það er sem stuðlar að því að þegnunum líði vel í heild. Rósbjörg segir þetta brennandi málefni á tímum þegar óvissa á heimsvísu fari vaxandi í stjórnmálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum. „Hugmyndafræðin að baki SPI-mælikvarðanum er að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólks mestu máli, þar á meðal er aðgangur að heilsugæslu, menntun, hagkvæmu húsnæði og staða jafnréttismála og trúfrelsis,“ segir Rósbjörg

Hún segir að ástæða þess að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu sé sterk staða Íslands á listanum. „Ísland hefur verið í úrvalsflokki.“

Auk framsöguerinda og skoðunar á dæmum um vel heppnaðar aðgerðir, verða opnar umræður og vinnuhópar á ráðstefnunni. Þátttakendur munu kynnast nýjum aðferðum og lausnum sem stuðla að félagslegum framförum. Bakhjarlar ráðstefnunnar eru innlendir og erlendir, en meðal íslenskra bakhjarla eru forsætisráðuneytið, Arion banki og Deloitte.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×