Innlent

Formaður Viðreisnar rifjar upp hvers vegna afi hans varð ekki ráðherra Framsóknarflokksins

Heimir Már Pétursson skrifar
Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova var í dag útnefnd maður ársins í íslensku atvinnulífi af Frjálsri verslun. Við það tækifæri sagði Benedikt Jóhannesson útgefandi tímaritsins og formaður Viðreisnar að fjölskylda hans hefði aldrei jafnað sig almennilega að afi hans varð ekki ráðherra Framsóknarflokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra afhendi Liv heiðursviðurkenninguna.

Í umsókn dómnefndar Frjálsrar verslunar segir að Liv sé maður ársins í atvinnulífinu fyrir forystuhlutverk hennar í uppbyggingu Nova úr engu í  að vera 16 milljarða króna virði á tíu árum.

Benedikt Jóhannesson útgefandi tímaritsins gat ekki stillt sig um að blanda stjórnmálum inn í ræðu sína, enda forsætisráðherra á staðnum til að afhenda Liv viðurkenninguna. Benedikt sagðist nýkominn af fundi með Bjarna Benediktssyni og Óttarri Proppé.

Sigurður Ingi veitti Liv verðlaunin.
„Mér líkar það miklu betur að þetta sé svona gagnsætt og fyrir opnum tjöldum. Þess vegna erum við Sigurður bara að hittast hér,“ sagði Benedikt.

Hins vegar hafi orðið tímamót í sögu Framsóknarflokksins á Þorláksmessu því þá hafi verið rétt um hundrað ár frá því flokkurinn útnefndi sinn fyrsta ráðherra.

„En það vill svo til að það var einmitt nafni minn og afi Benedikt Sveinsson. Hann var semsagt ráðherraefni Framsóknarflokksins. Hins vegar var forsætisráðherraefnið sem þá var; hann hafnaði honum vegna þess að Benedikt var ekki framsóknarmaður. Við reynum nú að halda þessu mjög á lofti í fjölskyldunni. En það vill svo til að til að halda upp á þessi tímamót hefur Sigurður fallist á að mæla með mér sem fulltrúa Framsóknarflokksins  í næstu ríkisstjórn,“ sagði Benedikt kíminn enda hefur hann þvertekið fyrir að fara í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.

Formaður Framsóknarflokksins tók gríninu vel og svaraði í svipaðri mynt.

„Takk Benedikt og til hamingju Liv og allir góðir gestir sem hér eru staddir. Þetta var nú eitthvað komið fram úr hjá Benedikt með samkomulagið um að hann yrði fulltrúann. Við tökum það bara upp á eftir fyrir opnum tjöldum,“ sagði Sigurður en að svo mæltu afhenti forsætisráðherra Liv viðurkenninguna og óskaði henni til hamingju.

„Ætli það að geta aðlagast breyttum aðstæðum hratt sé ekki eitt það mikilvægasta í fyrirtækjarekstri í dag. Það má ef til vill segja að Nova sé ágætis sönnun þess að ef þú stofnar fyrirtæki, þá er bara alls ekki víst að það klikki,“ sagði Liv Bergþórsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×