Innlent

Gamlárskvöld á hjara veraldar: „Í bænum er svo mikil mengun að enginn sér sinn flugeld springa“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Gamlárskvöld í Trékyllisvík er rólegt og huggulegt. Hér má sjá Böddu, Kitta, Björn og Árnýju Björk á góðri stund.
Gamlárskvöld í Trékyllisvík er rólegt og huggulegt. Hér má sjá Böddu, Kitta, Björn og Árnýju Björk á góðri stund. Vísir/Árný
Jólahátíðin og gamlársdagur eru fyrir marga fjölskylduhátíðir sem boða frið og nýja tíma. Þá koma fjölskyldur saman og fagna hátíð ljóssins og kveðja gamla árið með flugeldum, kampavíni og hverskyns góðgæti.

Gamlárskvöld á Íslandi er orðið frægt á heimsvísu fyrir flugeldabrjálæði og ofsafengið sprengjuæði landans. Hér eru vitanlega borgir og bæir oftast með stærstu sýningarnar en blaðamaður getur með sanni sagt að gamlárskvöld í Reykjavík er eitt það furðulegasta og stórkostlegasta sem hægt er að upplifa. Hins vegar er mörgum sem finnst gamlársbrjálæði höfuðborgarinnar ekki vera heillandi og vilja heldur njóta hátíðarinnar og fagna nýjum minningum í rólegheitum, fjarri öllum asa.

Meðal þeirra eru bóndahjónin á Melum, Bjarnheiður Júlía Fossdal, einnig þekkt sem Badda á Melum og maður hennar Björn Torfason sem oftast er kallaður Björn bóndi á Melum. Þau, ásamt börnum sínum fimm og fjölskyldum þeirra, hafa oft fagnað gamlárs og jólunum saman á sveitabænum Melum í Trékyllisvík á Ströndum, þar sem þau hjónin eru með búskap.

Margir í fjölskyldunni sjá sér fært að ferðast norður um hátíðarnar en eins og gefur að skilja er barnahópurinn stór og margir komnir með sínar eigin jólahefðir og halda hátíðirnar með sínum fjölskyldum.

Á hjara veraldar í hjarta náttúrunnar

Trékyllisvík er staðsett í Árneshreppi en það er eitt afskektasta svæði landsins. Í hreppnum búa um það bil 55 manns miðað við síðustu kosningar samkvæmt skrifstofu Árneshrepps. Um er að ræða fámennasta sveitarfélag landsins. Svæðið er mjög einangrað á veturnar og allajafna ekki fært bílleiðina frá áramótum og langt fram á vor.

„Við erum bara orðin lokuð eftir 4. janúar. Þá opnast ekkert vegur. Við erum í G-reglu hjá Vegagerðinni og það þýðir að það er bara opnað fram að jólum og yfirleitt er opnað fyrir eina ferð eftir jól eða eftir áramót til að koma skólabörnunum í burtu. Svo er ekkert opnað fyrr en 20.mars,“ segir Badda.

Það hafi vitanlega áhrif á fólksfjöldann um hátíðirnar sem og almennt. 

Badda nefnir að um tólf heimili haldi hátíðirnar í sveitinni þetta árið. Einangrunin sést vel þegar fréttir berast af því að vörur vanti í verslunina þar sem ekki hefur verið hægt að fljúga á Gjögur. Badda segir þó að hún bindi vonir við að flogið verði í dag og þá komi vonandi fleiri vörur. Annars séu þau vel undirbúin og versli þannig inn að þau eigi alltaf eitthvað til.

Fámennt en góðmennt

Badda og Björn á Melum sjá fram á að vera ein í kotinu á gamlárs þetta árið ásamt Kitta sem býr á næsta bæ. Yfirleitt er stærstur hluti fjölskyldunnar saman kominn en nú eru tímarnir að breytast og börnin bundin við vinnu í bænum. Þá verður að velja á milli þess að vera í sveitinni á jólunum eða á gamlárs.

Badda segist hafa kvatt börnin til að koma frekar á jólunum þar sem það væri aðeins stærri hátíð í þeirra augum heldur en gamlárskvöld. Badda nefnir að yfirleitt hafi fólk og fjölskyldur verið dugleg að sækja sveitina heim um hátíðirnar en þetta árið virðist vera fátt um fólk vegna veðurs og vinnu. Það verður því rólegheita stemmning á gamlárs eins og reyndar svo oft áður.

Einangrunin og rólegheitin heillandi

Badda segist ekki vera mikið fyrir það að sprengja flugelda og þeim finnst helst til of mikil mengun og læti sem flugeldaæðið hefur í för með sér.

„Ég hef verið í Reykjavík á þrettándanum og mér fannst þetta skelfilegt. Í bænum er svo mikil mengun að enginn sér sinn flugeld springa,‘‘ segir hún og bætir við að hún kaupi í raun bara flugelda til að styrkja björgunarsveitina. Baddar nefnir að hún sé einmitt ein þeirra sem aðstoði við að selja flugeldana fyrir hátíðirnar og leggi þannig málefninu lið.

Badda segir gamlárskvöld í borginni ekki heilla sig og vill heldur rólegt gamlárskvöld í sveitinni á Ströndum.  Henni finnst einangrunin og víðáttan í Trékyllisvík heillandi og hugguleg.

„Eitt barnabarnið kom nú að minnsta kosti tvisvar á gamlárskvöld af því að hann var skíthræddur við rakettur. Ég spurði hann núna hvort hann ætlaði ekki að koma norður til okkar og hann sagðist vera orðinn aðeins vanari þessu,“ segir Badda kímin og hlær.

Eru bundin búskapnum

Hjá Böddu og Birni er þetta fremur ólíkt en hjá flestum sem búa í borgum og bæjum. Badda segir að þessir dagar séu í raun rólegheitadagar en þó sé mikil vinna fólgin í því að vera bóndi og ekki sé auðvelt að taka sér frí frá búskapnum eins og gefur að skilja.

„Við erum sauðfjárbændur og á þessum tíma erum við náttúrulega úti í fjárhúsum frá því snemma um morgun. Þetta er náttúrulega tilhleypingatími. Við byrjum að hleypa til um 19. des og það fer heilmikill tími í þetta. Á gamlársdag og líka aðfangadag þá förum við dálítið snemma í fjárhúsin og gefum og hleypum til og erum komin heim um hádegi. Svo förum við aftur út eftir hádegi og gefum, þannig við séum komin heim á góðum tíma. Það er náttúrulega allt heilagt eftir sex,“ segir Badda.

Hún leggur hér áherslu á að á áramótunum þurfi vitanlega að hugsa um dýrin og þá sé farið lengra frá bænum til að skjóta upp flugeldunum. Það sé líka skemmtilegra því þá sjái þau betur flugeldana frá öðrum sveitabæjum.

Veðrið setur strik í reikninginn

Ekki er mikið um atburði þetta árið en Ungmennafélagið hefur vanalega séð um að halda félagsvistir á milli jóla- og nýárs. Þetta árið hefur veðrið verið svo slæmt að ekki hefur verið mikið um mannamót.

Badda telur því að líklega verði ekkert af félagsvistinni. Þó tíðkist einnig jólaboð og heldur hún sjálf jólaball heima á Melum fyrir fjölskylduna og börn í sveitinni á jóladag.

Áramót fyrir sunnan í fyrsta sinn

Árný Björk Björnsdóttir, dóttir Böddu og Bjössa á Melum, mun í fyrsta skiptið fagna áramótunum fyrir sunnan og segir hún að hún eigi eftir að sakna þess að vera í kyrrðinni fyrir norðan á gamlárs enda þekki hún ekkert annað en hátíðirnar fyrir norðan.

Þetta verður því sannarlega breyting fyrir hana. Hún nefnir að lífið í sveitinni sé talsvert öðruvísi.

„Ég finn það bara eins og þegar ég kem suður eftir áramót að þá er ennþá verið að sprengja fyrir utan gluggann hjá manni allan daginn, á öllum tímum dags en þarna er þetta bara eitt skipti. Maður horfir yfir fjörðinn á næstu bæi, nýtur ljósanna og svo fer maður bara inn í kaffi,“ segir Árný.

Hér eru hjónin ásamt nokkrum börnum í sveitinni. Þessi mynd var tekin nú í sumar.Vísir/ Stefán
Árný Björk, dóttir Böddu og Björns, nefnir að stundum hafi fólk í sveitinni hist og haldið brennu og skotið saman en það sé ekki algilt. Einnig skipti Kaffi Norðurfjörður míklu máli fyrir félagslífið í sveitinni en það var stofnað árið 2008. Fyrir það hafi þetta verið verbúð þar sem stundum voru haldin áramótapartý á árum áður. 

Árný mun í fyrsta skiptið ekki vera fyrir norðan á áramótunum en segist þó vera spennt fyrir því að prófa að halda áramótin í bænum. Þá hafi hún tækifæri til að hitta vini og vandamenn fyrir sunnan. Hún nefnir þó að henni muni eflaust bregða við lætin og sakna kyrrðarinnar. Áramótin verði samt sem áður spennandi.

Ármótin eru því jafn mismunandi eins og við erum mörg. En víst er að Badda og fjölskylda á Melum mun vafalaust njóta þess að skjóta upp rakettum í kyrrðinni í Trékyllisvík á meðan borgarbúar halda áfram að sprengja eins og þeim einum er lagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×