Innlent

Íslendingar fastir á flugvelli: „Fólki er orðið heitt í hamsi hérna“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Flugi flugfélagsins Vueling frá Barcelona til Keflavíkur hefur nú verið frestað í tvígang en um það bil tuttugu Íslendingar eru á meðal farþega. Vélin átti að fara í loftið í gærkvöldi en eftir tæplega níu klukkustunda seinkun var fluginu aflýst og farþegar fluttir með rútu á hótel. Staðan er sú sama í dag og farþegar orðnir pirraðir.

Gunnar Ingvarsson, sem er á meðal farþega, segir að fólk hafi nær engar skýringar fengið. „Við höfum annars fengið upplýsingar um að það sé ekki áhöfn til að fljúga og hins vegar að veðrið á Íslandi sé svo slæmt,“ segir Gunnar, en allt annað flug er á áætlun í dag.

Hann segir að farþegar séu orðnir pirraðir og óþreyjufullir enda vilji fólk ná áramótum á Íslandi. „Fólki er orðið heitt í hamsi hérna. Það eru öskur og læti, en þá fyrst og fremst hjá Spánverjunum.“

Gunnar segir að flugfélagið hafi lofað því að vera með svör á reiðum höndum klukkan 17. Áætluð koma þeirra til landsins var 18.40, en samkvæmt vef Keflavíkurflugvallar er áætluð koma nú 22.35.

Sjá má myndskeið sem Gunnar tók af flugvellinum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×