Innlent

Bardagameistarinn Conor McGregor að kaupa sig inn í Mjölni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Írski bardagameistarinn Conor McGregor hyggst kaupa 14 prósenta hlut í rekstrarfélagi bardagaíþróttastöðvarinnar Mjölnis sem senn flytur í húsnæði gömlu Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð.

„Hann hefur mikinn áhuga á að kaupa hlut í Mjölni,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður stjórnar Mjölnis og annar stærstu eigenda rekstrarfélagsins, en hinn er bardagakappinn Gunnar Nelson. Aðrir minni eigendur eru faðir Gunnars, Haraldur Dean Nelson, Bjarni Baldursson og Árni Þór Jónsson.

„Það á að auka hlutafé í Mjölni til að hjálpa okkur við að starta Mjölni í Öskjuhlíð. Þetta er mikil stækkun og kostnaðarsöm og hann vildi hjálpa með það og eiga hlut í þessu,“ segir Jón Viðar sem kveður þó ekkert endanlega frágengið.

„En við erum í samskiptum við þá sem sjá um fjármálin hans Conors. Hann er búinn að lýsa því nokkrum sinnum yfir að hann vilji kaupa,“ segir Jón Viðar sem vonast til að viðskiptunum verði lokið í byrjun janúar. „Að hann eigi hlut í Mjölni er alveg gríðarleg auglýsing fyrir okkur erlendis upp á að fá útlendinga til að æfa hjá okkur.“

Conor hefur sjálfur æft mikið hjá Mjölni. „Áður en hann varð frægur þá kom hann í Mjölni og átti engan pening og við vorum að lána honum fyrir samlokum,“ rifjar formaður Mjölnis upp. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×