Innlent

Hátt í hundrað brennur um allt land

Þorgeir Helgason skrifar
Áramótabrennur verða venju samkvæmt haldnar víða í kvöld. Á höfuðborgarsvæðinu verður kveikt í á sautján stöðum og þá verða brennur í flestum öðrum bæjarfélögum vítt og breitt um landið. Veðurspáin fyrir áramótin er hin ágætasta þótt éljagangur og hvassviðri gætu gert vart við sig á Austfjörðum.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir útlit fyrir að víða verði léttskýjað og hægur vindur.

„Veðrið gæti varla verið skárra miðað við það sem á undan er gengið síðustu daga. Það er vaxandi hæðarhryggur yfir landinu sem dregur úr vindi og úrkomu og það gerist nánast eins og eftir pöntun á akkúrat réttum tíma,“ segir Þorsteinn.

Áramótabrennur verða með hefðbundnum hætti á höfuðborgar­svæðinu og verður kveikt í þeim flestum klukkan 20.30 í kvöld.

Í Reykjavík verða tíu brennur, tvær í Kópavogi og þá verða brennur í Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, á Álftanesi og á Seltjarnarnesi, ein í hverju bæjarfélagi. Að vanda verður kveikt í fyrstu brennunni á höfuðborgarsvæðinu á athafnasvæði Fisfélagsins við Úlfarsfell klukkan 15.

Sýslumenn hafa gefið út leyfi fyrir 90 brennum á gamlárskvöld og leyfi fyrir þó nokkrum þrett­ándabrennum.

Á Akranesi verður brenna í Kalmansvík og þá verða fjórtán brennur á Vestfjörðum. Á Egilsstöðum verður áramótabrennan tendruð kl. 16.30 í dag. Áramótabrenna ÍBV, sem haldin hefur verið í aldarfjórðung, verður hins vegar ekki á dagskrá í ár vegna kostnaðar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×