Innlent

Bjarni bjartsýnn á myndun nýrrar stjórnar undir hans forsæti

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Sjálfstæðisflokksins fékk í dag umboð forseta Íslands til að ljúka stjórnarmyndunarviðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð. Hann er bjartsýnn á að flokkunum takist að ná saman og að ný ríkisstjórn verði tekin við vel áður en Alþingi kemur saman í janúar.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins kom á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands klukkan hálf fimm í dag. En hann hefur að undanförnu átt í óformlegum viðræðum við formenn Viðreisnar og Bjartra framtíðar um myndun ríkisstjórnar sem hefði minnsta mögulegan meirihluta á Alþingi.

Hvert er erindi þitt til forseta?

„Við ætlum að ræða um stöðuna í þessari stjórnarmyndun. Við höfum aðeins átt samtöl í síma um að það hefur orðið eitthvað ágengt í þessum samtölum við Bjarta framtíð og Viðreisn. Þá er orðin spurning hvort að færa eigi það yfir á formlegri stað,“ sagði Bjarni við komuna á Bessastaði.

Formaður Sjálfstæðisflokksins gekk svo í Bessastaðastofu og skrifaði í gestabók samkvæmt hefð áður en hann settist síðan á um tuttugu mínútna fund með Guðna Th. Jóhannessyni í bókastofunni og fór yfir stöðuna í þriðju tilraun flokkanna til myndunar meirihluta á Alþingi.

Þegar hann ræddi við fréttamenn strax að fundi loknum sagðist hann vera kominn með umboð forsetans til að ljúka viðræðunum við Bjarta framtíð og Viðreisn.

„Já, ég fór yfir það með forsetanum að við höfum þokað málefnavinnunni áfram,“ sagði formaðurinn. Enn stæði þo ýmislegt út af borðinu.

Eruð þið komnir lengra með það sem allir vita að eru erfiðustu málin á milli þessara flokka. Eruð þið komnir lengra með þau en í fyrstu tilraun þinni til að mynda stjórn með þessum tveimur flokkum?

„Já, já það er alveg ótvírætt.“

Þannig að þú ert þá bjartsýnni nú en áður?

„Við erum einfaldlega komnir lengra með þau mál. En auðvitað skiptir máli að vanda vel til verka og úttala sig um hluti þegar menn eru að leggja af stað í svona leiðangur. Við vitum öll að þetta er minnsti mögulegi meirihluti sem hægt er að mynda á þinginu. Þótt ekki væri nema bara þess vegna skiptir máli að úttala sig um hluti,“ sagði Bjarni.

Þessi stjórnarmyndun hafi í raun verið eini möguleikinn sem verið hafi opinn á þessari stundu. Alþingi kemur næst saman hinn 24. janúar.

Ertu hér á Bessastöðum á þessari stundu bjartsýnn á að fyrir þann tíma verði komin ríkisstjórn þessara flokka?

„Fyrir 24. janúar. Já ég er alveg vissum að við höfum leitt til lykta þessar viðræður fyrir þann tíma. Og ég er nokkuð bjartsýnn á að við náum í land.“

Er gengið út frá því að þú verðir forsætisráðherra í stjórninni ef það tekst að mynda hana?

„Já það er gengið út frá því,“ sagði Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×