Innlent

Hælisleitandi á fölsuðum passa hlaut dóm

Sveinn Arnarsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.
Afganskur hælisleitandi var dæmdur í þrjátíu daga óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness þann 28. desember síðastliðinn fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við vegabréfsskoðun hjá lögreglu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Einnig segir í dómnum að samkvæmt dómafordæmum þyki ekki fært að skilorðsbinda dóminn.

Í tvígang hið minnsta hefur sambærilegum dómum héraðsdóma á Íslandi verið snúið við í Hæstarétti. Þann 17. desember í fyrra var dómi sem sýrlenskur flóttamaður hlaut snúið við og honum ekki gerð refsing í sams konar máli. Einnig var sams konar dómur felldur í Hæstarétti þann 9. júní síðastliðinn. Dómar þessir eru um margt líkir þar sem hælisleitendur hafa framvísað fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins og óskað eftir hæli hér á landi.

Sá dæmdi kom til landsins þann 3. október síðastliðinn og var för hans heitið áfram til Kanada. Við komuna til landsins gerði hann lögreglu viðvart um að umsókn hans um hæli í Grikklandi hafi verið í vinnslu þar í landi í næstum áratug. Þá hafi hann að auki sótt um hæli í Belgíu og Þýskalandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×